Eiga að fá mannsæmandi laun

„Ég styð íslenska sjómenn hundrað prósent,“ sagði Erpur Eyvindarson.
„Ég styð íslenska sjómenn hundrað prósent,“ sagði Erpur Eyvindarson. mbl.is/Þorvaldur

Einn þeirra sem mættu á samstöðufund sjómanna fyrir utan hús Ríkissáttasemjara í dag var tónlistarmaðurinn Erpur Eyvindarson. Hann segist hafa mætt til að standa með íslenskum sjómönnum í baráttu þeirra fyrir sanngjörnum kjörum.

„Ég er mættur, eðlilega. Hryggjarstykkið í efnahagslífi okkar Íslendinga er hér mætt holdi klætt og ef einhver á skilið að fá sanngjörn laun eru það mennirnir sem hírast úti á ballarhafi í 30-40 daga í senn til að styðja við þjóðarbúið. Þetta eru menn sem ég get peppað alla leið, og ekki bara af því að ég á ættir að rekja vestur á firði í alla mögulega ættliði, heldur vegna þess að þetta er réttlætismál. Þetta eru bara hetjur og þeir eiga að fá mannsæmandi laun,“ sagði Erpur í samtali við mbl.is.

„Það er allt í lagi að menn græði, en þegar græðgi útgerðarmanna er farin að bitna á þeim sem bera útgerðirnar uppi, þá finnst mér nóg komið. Ég styð íslenska sjómenn hundrað prósent,“ sagði Erpur Eyvindarson.

mbl.is