Fundur milli samningsaðila í kjaradeilu sjómanna og útgerða hófst nú fyrir stundu hjá Ríkissáttasemjara.
Eins og fram hefur komið ber enn talsvert í milli hjá samningsaðilum en Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sem situr í samninganefnd Sjómannasambands Íslands, sagði í viðtali við mbl.is í morgun að hann teldi líklegt að línur tækju að skýrast á fundinum í dag.
Fyrir fram var áætlað að fundurinn myndi standa til kl. 15. Frekari frétta af gangi viðræðna ætti því að vera að vænta innan skamms.
Sjómenn hafa fjölmennt við Karphúsið, en þeir vilja mótmæla því að hafa ekki sömu réttindi og annað vinnandi fólk. Þeir vilja gefa skýr skilaboð um það að þeir mæti ekki um borð ef lög verði sett á verkfallið.