Ekki lengur stál í stál

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir allt tal um lögbann …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir allt tal um lögbann á verkfall sjómanna fjarri sanni og gagnrýnir að alþingismenn skuli láta slíkt frá sér að svo komnu máli. mbl.is/Stella Andrea

Fundum í kjaradeilu sjómanna verður fram haldið í dag kl. 13 hjá Ríkissátttasemjara. Lítið er gefið upp um framgang einstakra mála en framkvæmdastjóri  SFS segir áframhaldandi fundarhöld deiluaðila jákvæða þróun.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði í samtali við mbl.is að fundur samninganefnda sjómanna og útgerða í gær hefði gengið ágætlega. „Við erum að hittast aftur í dag. Ég held að það hljóti að teljast jákvætt,“ sagði Heiðrún.

Hún segir góðan anda í viðræðunum og það að menn séu að hittast daglega til að leita lausna sé framför frá því sem verið hefur.

Heiðrún segir fundaraðila hafa komið sér saman um það hvaða mál verði tekin fyrir á næstunni en ekki verði gefið upp að svo stöddu hvernig gangi með einstök mál.

Umræða um inngrip stjórnvalda úr lausu lofti gripin

Heiðrún Lind segir það ekki vilja SFS að Alþingi hlutist til um deiluna, en talsvert hefur verið um það rætt meðal sjómanna og á samfélagsmiðlum að stjórnvöld grípi mögulega til lagasetningar á vinnustöðvun sjómanna.

Sjá frétt: Sættum okkur ekki við lagasetningu

Innt eftir sinni sýn á þá hlið málsins segist Heiðrún hvergi hafa heyrt né séð nokkuð um að slíkt komi til greina nema frá Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata. Hún segir SFS þvert á móti hafa heimildir fyrir því að ekkert slíkt sé í farvatninu, og gagnrýnir það harðlega að þingmaður leyfi sér að varpa slíku fram á þessu stigi viðkvæmra kjaradeilna.

„Það er ábyrgðarhluti af alþingismanni að setja svona fram og ekki til þess fallið að hafa góð áhrif. En á meðan verið er að ræða saman, þá er ríkið ekki að fara að hlutast til,“ sagði Heiðrún Lind í samtali við mbl.is.

mbl.is