Franskir sósíalistar takast nú hart á um hver verður frambjóðandi flokksins í komandi forsetakosningum. Talið var að leiðin væri greið fyrir Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra eftir að François Hollande tilkynnti að biði sig ekki fram til endurkjörs en Arnaud Montebourg fyrrverandi iðnaðarráðherra, fylgir fast á hæla Valls.
Valls, sem er 54 ára gamall, er með mest fylgi í skoðanakönnunum en sósíalistar ganga að kjörborðinu 22 janúar. Viku síðar verður kosið á milli þeirra tveggja sem fá flest atkvæði í forvalinu.
Þegar Valls kom fram á pólitíska sjónarsviðið þá var litið á hann sem mann sem vildi nútímavæða flokkinn og draga úr ríkisútgjöldum. Margir sósíalistar hafa verið ósáttir við stefnu Valls og telja hann allt of frjálslyndan og jafnvel hægrimann sem standi með atvinnurekendum á kostnað verkalýðsins.
En núna þarf hann á stuðningi grasrótarinnar að halda en margir í þeim flokki eru hrifnari af Monteborg, sem þykir sósíalisti af gamla skólanum eða Benoit Hamon fyrrverandi menntamálaráðherra.
Valls er á kosningaferðalagið um landið og hefur vakið athygli hversu fáir mæta á fundi hans. Til að mynda mættu aðeins nokkur hundruð gestir á fund hjá honum um helgina í Norður-Frakklandi. Ekki er ljóst hvort það er Valls sem kjósendur hafa ekki áhuga á eða einfaldlega flokkurinn því skoðanakannanir benda til þess að það verði François Fillon, frambjóðandi repúblikana og Marine Le Pen, frambjóðandi Þjóðfylkingarinnar, sem muni komast áfram í seinni umferð forsetakosninganna í vor.