Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu um brjóstaminnkun.
Sæl Þórdís,
ég hef mikið verið að hugsa um brjóstaminnkun (úr skálastærð DD), hvað kostar slík aðgerð og hvað er maður lengi að jafna sig.
Kv, DD
Sæl „DD“ og takk fyrir spurninguna,
þetta er algeng aðgerð og oft mjög þakklátir skjólstæðingar. Til þess að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við aðgerðina þá miðast við að fjarlægja um 500 g af hvoru brjósti, að konan sé í kjörþyngd og sé reyklaus. Þá er aðgerðin yfirleitt framkvæmd á sjúkrahúsi. Ef konan fellur ekki undir þetta þá kostar hún á bilinu 500-700 þúsund. Það eru yfirleitt ekki miklir verkir sem fylgja þessum aðgerðum og konan er með léttar umbúðir en í góðum þrýstingsbrjóstahaldara. Þegar konan er laus við umbúðir tekur við mislangur tími sem þarf að sinna örunum með plástrum og kremum til þess að þau verði sem fallegust. Konur þurfa að vera mislengi frá vinnu. Því erfiðari sem vinnan er því lengur er nauðsynlegt að vera frá. Skrifstofuvinna krefst yfirleitt um tveggja vikna leyfis.
Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR.