Fyrsta aftaka ársins í Bandaríkjunum fór fram í gærkvöldi er Christopher Wilkins, 48 ára, var tekinn af lífi með banvænni sprautu. Enn er hart deilt á þau ríki Bandaríkjanna sem enn beita dauðarefsingum vegna þeirra efna sem notuð eru við aftökurnar.
Síðar í mánuðinum ætla tvö ríki, Virginia og Ohio, að nota mídazólam við aftökuna í stað lyfjablöndu en mídazólam er róandi lyf sem oft er notað við upphaf svæfingar fyrir skurðaðgerðir. Á vefnum doktor.is segir: „Þá eru til lyf sem einungis eru notuð til þess að innleiða svæfingu sem svo er haldið áfram með öðrum lyfjum. Tíómebúmal er hið dæmigerða lyf meðal þessara lyfja (nú yfirleitt notuð yngri lyf, m.a. mídazólam).“
Wilkins var dæmdur fyrir tvöfalt morð árið 2005 en að hans sögn var ástæðan sú að dópsali hans og félagi hafi selt honum skammt af krakk kókaíni á 20 Bandaríkjadali en í ljós hafi komið að dópið var hvítur steinn. Þeir hafi síðan hlegið að honum.
Við réttarhöldin játaði Wilkins að hafa drepið mann daginn áður en þeir deildu um aðgengi að símaklefa. Jafnframt játaði hann að hafa ekið stolinni bifreið á tvær manneskjur á gangstétt þar sem hann taldi að önnur þeirra hefði stolið sólgleraugunum hans.
Við réttarhöldin árið 2008 sagði Wilkins að dauðadómur væri ekki mikið mál en við áfrýjun kvartaði Wilkins yfir lélegri málsvörn. Nefndi hann sem dæmi að einn verjanda hans hafi þegar verið búinn að ráða sig til starfa hjá saksóknara þegar hann varði Wilkins.
Yfirleitt hefur Texas-ríki tekið flesta fanga af lífi en í fyrra sigldi Georgía framúr með níu aftökum en sjö aftökur fóru fram í Texas í fyrra. Mjög hefur dregið úr dauðarefsingum í Bandaríkjunum en alls voru þær 20 talsins í fyrra og hafa ekki verið færri í 30 ár.
Þar hefur skipt miklu deila ríkja sem enn taka fanga af lífi við lyfjafyrirtæki um afhendingu banvænna lyfjaskammta. Mikill skortur er á slíkum lyfjablöndum þar sem öll helstu lyfjafyrirtæki heims, einkum evrópsk, neita að afhenda lyfin til slíkra nota.
Í síðustu viku höfðaði Texas mál gegn Lyfjastofnun Bandaríkjanna, Food and Drug Administration (FDA), fyrir að leggja hald á sendingu af sodium thiopental en ríkið hafði ætlað sér að nota það við aftökur.
Bæði Texas og Arizona ætluðu í október 2015 að flytja inn með leynd lyf til að nota við aftökur frá Indlandi. FDA lagði hald á sendingarnar og benti ríkjunum tveimur á að það væri lögbrot að nota barbiturate við aftökur í Bandaríkjunum. Undanfarin ár hefur Texas notað pentobarbital við aftökur. Pentobarbital er af flokki barbiturate lyfja sem slæva miðtaugakerfið. Lyfið getur haft slævandi áhrif en í stórum skömmtum er það banvænt.
Í grein sem birtist á mbl.is árið 2014 kom fram að pentobarbital, annaðhvort eitt og sér eða íblandað öðrum lyfjum, hafi verið algengasta lyfið við aftökur en það er illfáanlegt eftir að helsti framleiðandi þess danska lyfjafyrirtækið Lundbeck fékk að finna til tevatnsins er bresku samtökin Reprieve hófu að herja á stórfyrirtækið.
Reprieve hefur lengi barist gegn aftökum og yfirleitt hefur barátta þeirra beinst gegn minni fyrirtækjum. En árið 2011 var látið til skarar skríða gegn Lundbeck. Haft var samband við Lundbeck og forsvarsmönnum þess bent á að lyfið væri orðið eitt helsta tækið til að taka fólk af lífi í Bandaríkjunum. Þeir sögðu að Lundbeck væri alfarið á móti því að lyfið væri notað við aftökur. Það væri einkum notað gegn flogaveiki. Hins vegar gæti fyrirtækið ekki stjórnað því til hvers framleiðsla þeirra væri notuð eftir að það væri selt til lyfsala eða dreifingaraðila. En Reprieve gaf sig ekki og í hvert skipti sem fangi var tekinn af lífi með pentobarbital, framleiddu af Lundbeck, var gefin út fréttatilkynning þar að lútandi.