Hugsanlega verður samið í kjaradeilu sjómanna á næstu dögum en fundir hafa gengið vel að undanförnu. Þetta segir Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands. „Það gekk vel í gær. Við erum búin að ræða svo mikið saman alla vikuna að við vitum hvar við höfum hvert annað,“ segir Konráð um viðræðurnar.
Hann segir að verið sé að togast á um hluti þar sem hægt er að þoka málum. „Það hefur gengið bærilega,“ segir Konráð. Spurður hvort samið verði í janúar svarar hann játandi og segist að minnsta kosti vona það. Hugsanlega verði samið í þessari viku, en ekki sé hægt að fullyrða um slíkt.
Næsti fundur í deilunni verður á morgun í húsakynnum ríkissáttasemjara. Spurður hvort sjómenn mæti þangað svangir til leiks til að spara pláss fyrir vöfflurnar sem eru bakaðar þegar samningur er í höfn: „Við erum búnir að vera svangir allan tímann,“ segir Konráð á léttu nótunum en bætir svo við að það sé ekki líklegt að samningur náist á fundinum á morgun, en svarar með jákvæðari hætti spurningu blaðamanns hvort fundurinn á morgun verði hugsanlega síðasti fundur fyrir undirritun.