Öll mál til umræðu á samningafundi sjómanna

Fulltrúar samninganefndar sjómannafélaganna á leið til fundar hjá Ríkissáttasemjara.
Fulltrúar samninganefndar sjómannafélaganna á leið til fundar hjá Ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundað verður áfram í sjómannadeilunni nú kl. 11. Samninganefndir hafa opnað á öll mál og vinna hart að því að ná fram ásættanlegri lausn.

Þetta sagði Bergur Þorkelsson, stjórnarmaður í Sjómannafélagi Íslands, sem á sæti í samninganefnd félagsins í samtali við mbl.is nú fyrir stundu. 

Bergur vildi ekki gefa nánari upplýsingar um hvaða mál væru til skoðunar á þessu stigi máls enda tilmæli frá sáttasemjara að slíkum upplýsingum yrði haldið innan funda að svo komnu. 

Hann segir þó að aðilar séu að reyna að ná saman í öllum málum í því augnamiði að ná fram ásættanlegri lausn á kjaradeilu sjómanna og útgerða, og að það hljóti að teljast jákvætt að menn fundi stíft í þeim tilgangi.

Sjómenn hafa nú verið í verkfalli í á sjöttu viku eða frá 14. desember sl.

mbl.is