Verulega mun sverfa að íslenskum fiskmarkaði og fiskframleiðendum ef verkfall sjómanna dregst frekar á langinn. Framkvæmdastjóri Ísfisks segir aukinn áhuga á fiski vegna stórminnkaðs framboðs, viðskiptasambönd haldi enn hjá sínu fyrirtæki en ef verkfallið verður mikið lengra horfi til stórfelldra vandræða.
„Ef eigendur og viðskiptabanki fiskframleiðenda standa ekki þétt saman til að leysa þann samdrátt í fjármagnsflæði sem óhjákvæmilega verður ef áhrifa verkfallsins gætir mikið lengur, mun það augljóslega verða gríðarlega erfitt hjá íslenskum fiskframleiðendum,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks.
Albert segir mörg sjávarútvegsfyrirtæki mjög skuldsett og geti menn ekki fengið tilslakanir á gjalddögum hjá sínum viðskiptabanka geti staðan orðið ansi þung.
„Samkvæmt mínum upplýsingum hafa menn átt misauðvelt með að ná slíku fram. Ef menn geta ekki fengið hlutum hliðrað til er hætt við því að einhverjir þurfi að leggja upp laupana,“ segir hann.
Albert segir að komi til þess að verkfallið dragist á langinn verði það líklega óyfirstíganlegt fyrir mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. „Ef þetta dregst enn frekar á langinn verður það bara hreinlega hræðilegt. Það er ekkert öðruvísi en það,“ bætir hann við.
Aðspurður um stöðuna á fiskmarkaði hérlendis segir Albert stöðuna á síðustu árum hafa verið þá að uppistaðan af fiski á markaði komi af dagróðrarbátum, sem eru undanskildir verkfalli sjómanna á fiskiskipum og geta því róið – ef veður leyfir.
„Það er alltaf háð veðri hvenær minni bátarnir geta róið. Í gær og í dag er engin sjósókn vegna veðurs og þá kemur ekkert inn. Það er eðlilega fljótt að klárast og það er vont að markaðurinn skuli eiga allt sitt undir íslenska janúarveðrinu, eins og staðan er í dag,“ segir Albert Svavarsson.