Ofsagróði og andlegt ofbeldi

Vilhjálmur Birgisson segir marga sjómenn upplifa samband sitt við útgerðarmenn …
Vilhjálmur Birgisson segir marga sjómenn upplifa samband sitt við útgerðarmenn sem andlegt ofbeldissamband. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Vil­hjálm­ur Birg­is­son hef­ur vakið mikla at­hygli fyr­ir skel­egga fram­göngu í störf­um sín­um fyr­ir samn­inga­nefnd sjó­manna. Hann hef­ur ákveðnar skoðanir á kjara­bar­áttu sjó­manna og sam­bandi þeirra við út­gerðir lands­ins.

„Rekstr­ar­skil­yrði út­gerðanna hafa verið með ein­dæm­um góð síðustu ár, og það sést ágæt­lega á hagnaði þeirra und­an­farið. Þegar krón­an féll í hrun­inu gjör­breytt­ist staðan nán­ast á einni nóttu því út­gerðir eru fyrst og fremst út­flutn­ings­fyr­ir­tæki. Síðan þá hafa út­gerðir lands­ins marg­ar hverj­ar nán­ast malað gull,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

„Ef við lít­um yfir síðastliðin sex ár, sem er sá tími sem sjó­menn hafa verið kjara­samn­ings­laus­ir, þá er staðan sú að út­gerðin hef­ur aldrei séð viðlíka tíð. Af­koma þeirra hef­ur verið æv­in­týri lík­ust,“ seg­ir hann.

Sjá frétt: Eign­ir sjáv­ar­út­vegs tæp­ir 590 millj­arðar árið 2015

Gremja, hroki og lík­ist and­legu of­beld­is­sam­bandi

En hvernig finnst Vil­hjálmi út­gerðirn­ar hafa staðið sig gagn­vart sjó­mönn­um þann tíma sem um ræðir?

„Það þarf ekk­ert að fara í nein­ar graf­göt­ur með það að gremja sjó­manna núna er til­kom­in vegna hroka út­gerðanna og þá van­v­irðingu sem marg­ir út­gerðar­menn hafa sýnt sjó­mönn­um. Það eru mörg dæmi þess að sjó­menn sem ætla að sækja sinn rétt á ein­hverju sviði eða malda eitt­hvað í mó­inn fá bara að taka pok­ann sinn. Það hef­ur ríkt mikið van­traust og tor­tryggni milli sjó­manna og út­gerða,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Hann seg­ir marga sjó­menn upp­lifa sitt ráðning­ar­sam­band við út­gerðar­menn sem and­legt of­beld­is­sam­band. Það sé ein af skýr­ing­un­um á því að kjara­samn­inga­mál sjó­manna eru í þeim hnút þessa dag­ana sem raun beri vitni.

„Staða launa­manns­ins og at­vinnu­rek­anda á þessu sviðinu er svo ofboðslega ójöfn að það er engu lagi líkt. Útgerðar­menn hafa al­ger­lega í hendi sér hverja þeir ráða og hverja þeir reka. Þetta er virki­lega viðkvæmt,“ bæt­ir Vil­hjálm­ur við.

Sjómenn heyja harða baráttu fyrir nýjum kjarasamningi. Verkfall sjómanna hefur …
Sjó­menn heyja harða bar­áttu fyr­ir nýj­um kjara­samn­ingi. Verk­fall sjó­manna hef­ur nú staðið síðan 14. des­em­ber síðastliðinn. mbl.is/​Hlyn­ur Ágústs­son

Bjöguð sýn á líðan starfs­fólks

Að sögn Vil­hjálms er sýn út­gerðarmanna á líðan síns starfs­fólks lík­lega bjöguð að ein­hverju leyti. Það sé til komið vegna þess að sjó­menn veigri sér við því að  standa uppi í hár­inu á út­gerðarmönn­um og því fái út­gerðar­menn oft­ar en ekki bara að heyra já-ið.

„Sá sem seg­ir nei og stend­ur á sín­um rétti er að öll­um lík­ind­um bú­inn að koma sér í þá stöðu að hann á á hættu að missa sitt lífsviður­væri. Þetta þekkja flest­ir sjó­menn. Þess vegna er ekk­ert skrýtið að menn séu feimn­ir við að setja sig upp á móti út­gerðarmönn­um. Það er sorg­legt en jafn­framt staðreynd að það er heim­ilt að lög­um að gera tíma­bundna ráðning­ar­samn­inga við sjó­menn til hverr­ar veiðiferðar fyr­ir sig í allt að tvö ár. Sjó­menn þurfa því oft að sætta sig við það að hafa lítið sem ekk­ert at­vinnu­ör­yggi og eng­an upp­sagn­ar­frest eft­ir allt að tveggja ára starf,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Forkast­an­legt að tala um tvær og hálfa millj­ón

Tals­vert hef­ur verið rætt um laun sjó­manna und­an­farið og Vil­hjálm­ur seg­ir mik­inn mis­skiln­ing ríkja um raun­veru­leg laun þeirra.

„Að menn leyfi sér að ýja að því að því að laun sjó­manna séu tvær og hálf millj­ón á mánuði, og hærri en laun lækna, er al­ger­lega forkast­an­legt og ein­fald­lega rangt. Ég hef aðgang að gögn­um okk­ar fé­lags­manna og þar er fljót­séð hver raun­veru­leg laun virki­lega eru. Ég gerði könn­un hjá okk­ur og okk­ar niðurstaða var sú að árið 2016 væru meðallaun um kr. 970.000. Það er með or­lofi, og þar fyr­ir utan er kostnaðar­hlut­deild sjó­manna fyr­ir það eitt að mæta til vinnu heill hell­ing­ur. Menn þurfa að greiða háar fjár­hæðir fyr­ir hlífðarfatnað, fæði og að geta verið í sam­bandi við um­heim­inn. Sjó­menn þurfa að borga stór­ar fjár­hæðir fyr­ir það eitt að mæta í vinnu sína,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

Svaka­leg­ur og óút­skýrður verðmun­ur á sama afla

Hann blæs á þau rök út­gerðanna að laun sjó­manna séu með þeim hætti sem þau eru vegna þess að þar séu menn á hluta­skipt­um.

„Á hvaða hluta­skipt­um eru menn? Í upp­sjáv­ar­geir­an­um geta menn ákveðið sjálf­ir hvaða verð þeir miða sitt upp­gjör við,“ seg­ir hann.

Hann nefn­ir sem dæmi að á ný­y­f­irstaðinni mak­ríl­vertíð hafi verið gert upp við sjó­menn sam­kvæmt því að kílóverð á mak­ríl væri 47-50 kr. pr. kíló. Þar hafi verið um að ræða mak­ríl sem veidd­ur var við Íslands­strend­ur og landað á Vopnafirði.

„Síðan kom hér danskt skip sem heit­ir Ruth og veiddi mak­ríl á sama svæði og á sama tíma. Þetta skip, sem veiddi sams kon­ar mak­ríl á Íslands­miðum á sama tíma, sigldi til Nor­egs og landaði þar. Þeir fengu 133 krón­ur á kílóið fyr­ir sama mak­ríl og greidd­ar voru tæp­ar 50 krón­ur fyr­ir kílóið af hér. Þetta er 160% mun­ur!“

Sjá frétt: Met á met ofan hjá Ruth

„Þetta er að ger­ast í upp­sjáv­ar­geir­an­um og hef­ur verið mjög lengi. Ein­hverra hluta vegna kom­ast menn upp með svona. Ég vil fá óháða rann­sókn­ar­nefnd sem hef­ur víðtæk­ar heim­ild­ir til að kalla eft­ir öll­um gögn­um til að kom­ast til botns í því hvernig menn geta rétt­lætt 160% verðmun af sama afla. Ég held að það sé ekki hægt að rétt­læta svona verðmun fyr­ir sama afla,“ held­ur Vil­hjálm­ur áfram.

Hann seg­ir Ruth einnig hafa veitt síld hér við land og fengið 113 krón­ur á kílóið, á meðan gert væri upp við ís­lenska sjó­menn á 42 krón­um fyr­ir kílóið af síld sem landað væri hér á landi.

„Það þarf varla meðal­greind­an apa til að sjá að það að greiða áhöfn 47-50 krón­ur á kílóið fyr­ir afla sem landað er á Vopnafirði á meðan verið er að greiða 133 krón­ur í Nor­egi fyr­ir sömu afurð stenst ekki nokkra ein­ustu skoðun,“ bæt­ir Vil­hjálm­ur við.

Hluta­skipti eiga að miðast við raun­veru­legt verðmæti afl­ans

Hluta­skipta­kerfið seg­ir Vil­hjálm­ur vera orðið tals­vert flókið og ekki skrýtið að mörg­um reyn­ist erfitt að skilja það til hlít­ar.

„En það er eitt sem mig lang­ar að benda á. Ef menn eru með hluta­skipta­kerfi þá á að miða við út­flutn­ings­verðmæti þess afla sem um ræðir. Ekki skipta bara hlut sem út­gerðar­menn geta bara ráðið hvernig eigi að ákveða. Það er al­veg fá­rán­legt að segja það einu sinni, að menn geti bara ákveðið verð á afl­ann sem þeir selja sjálf­um sér og gert upp við sjó­menn á því verði – og selt afl­ann svo áfram á fullu verði til út­landa,“ seg­ir Vil­hjálm­ur með mikl­um þunga.

Um sjó­manna­afslátt­inn seg­ir Vil­hjálm­ur úti­lokað að ganga frá nýj­um kjara­samn­ingi ef ekki verður leiðrétt það rang­læti sem fel­ist í því að sjó­menn séu eina starfs­stétt­in sem ekki fái dag­pen­inga fyr­ir að vinna sína vinnu fjarri sínu heim­ili.

Sjá frétt: Sjó­menn eiga að sitja við sama borð og annað launa­fólk

Vilhjálmur á leið til fundar með samninganefnd sjómanna á dögunum.
Vil­hjálm­ur á leið til fund­ar með samn­inga­nefnd sjó­manna á dög­un­um. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Eiga svo mikið fé að þeir verða að koma því fyr­ir ein­hvers staðar

Hann tek­ur þó sér­stak­lega fram að ekki sé hægt að setja all­ar út­gerðir und­ir sama hatt.

„Þess­ar minni út­gerðir eru auðvitað mis­jafn­lega stadd­ar og við verðum að taka til­lit til þess. En við sjá­um það á stærstu út­gerðunum, sem eiga mikið af kvóta, að þeir eru fyr­ir löngu farn­ir að ger­ast um­svifa­mikl­ir á öðrum sviðum líka, eins og að leggja und­ir sig heilu fast­eigna­fé­lög­in. Þeir hafa hagn­ast svo rosa­lega að þeir eru til­neydd­ir að koma pen­ing­un­um sín­um ein­hvers staðar fyr­ir. Þau fé­lög ættu að geta skrifað und­ir all­ar kröf­ur sjó­manna án þess svo mikið sem að blikka auga. En af ein­hverj­um ástæðum berj­ast þeir hvað harðast fyr­ir því að gengið verði að stærstu kröf­um sjó­manna. Það er hreint og beint ótrú­legt,“ seg­ir hann.

„Ætli ég fengi nokk­urs staðar aðra vinnu?“

Vil­hjálm­ur seg­ir að starf stétt­ar­fé­lags­for­manns­ins ein­skorðist yf­ir­leitt ekki við hefðbund­inn skrif­stofu­tíma.

„Það eru fá kvöld hjá mér sem ekki fara í ein­hvers kon­ar gagna­öfl­un og aðra vinnu þessu tengt. Ég hef tekið þá stefnu að reyna alltaf að afla mér eins mik­illa upp­lýs­inga og ég mögu­lega get og ef ég er í minnsta vafa um að rétt­ur starfs­fólks kunni að vera skert­ur þá læt ég reyna á það fyr­ir dóm­stól­um. Ég er bú­inn að stefna svo mörg­um fyr­ir­tækj­um og op­in­ber­um aðilum fyr­ir hönd minna fé­lags­manna að ég nefndi það við kon­una mína um dag­inn hvort ég fengi nokk­urs staðar vinnu, ef til þess kæmi að ég hætti sem formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness,“ seg­ir Vil­hjálm­ur.

„En mín sýn er ein­fald­lega sú að um leið og ég hætti að nenna að berj­ast fyr­ir fólk, þá fer ég eitt­hvað annað. Það er bara þannig,“ seg­ir Vil­hjálm­ur Birg­is­son.

mbl.is