Að elska vondu (norsku) strákana

Þær Chris, Vilde, Eva, Noora og Sana eru helstu fyrirmyndir …
Þær Chris, Vilde, Eva, Noora og Sana eru helstu fyrirmyndir ungra kvenna á Norðurlöndunum í dag.

Hún kallaði hann klisju. Ein besta vin­kona henn­ar hafði strunsað til hans nokkr­um augna­blik­um fyrr og hent í hann peysu sem sagði öll­um skól­an­um að hann hefði sofið hjá henni. Merkti hana nafni hans með rauðum stöf­um. Hann talaði ró­lega til vin­kon­unn­ar í fyrstu, blíðlega, sagði málið mis­skiln­ing. En svo:

„Ef þú held­ur að ég líti á þig sem ein­hvers­kon­ar verðlauna­grip hef­urðu rangt fyr­ir þér. Þú ert ekki nógu góð til þess.“

Þetta lét Noora Amalie Sætre ekki viðgang­ast. Al­veg jafn ró­lega og William Magn­us­son hafði niður­lægt Vilde Hell­erud Lien sagði hún hon­um til synd­anna.

„Fékkstu aldrei viður­kenn­ingu sem barn eða? Hrósaði mamma þín aldrei teikn­ing­un­um þínum? Kom pabbi aldrei á skóla­slit­in?“ spurði hún. „Alla­vega, þá þarftu að kom­ast yfir það og fara að haga þér eins og mann­eskja. Hættu að ganga um eins og ein­hver hel­vít­is klisja.“

Noora lagði dumbrauðar var­irn­ar sam­an, skaut hök­unni upp og valsaði á brott und­ir takt­föst­um tón­um Kel­is.

Með því fædd­ist femín­ískt íkon fyr­ir nýja kyn­slóð Norður­landa­búa. Noora í norska sjón­varpsþætt­in­um Skam hafði, rétt eins og Nora í Brúðuheim­ili Ib­sens, sýnt styrk sinn og farið án þess að feðraveldið fengi rönd við reist. Í næsta þætti reynd­ust þó blik­ur á lofti enda átti Noora sjálf eft­ir að verða gang­andi klisja og það við hlið Williams.

Upp­á­halds­sam­band aðdá­enda

Fyr­ir þá sem ekki þekkja til eru Skam allra vin­sæl­ustu ung­lingaþætt­irn­ir á Íslandi í dag. Þrjár serí­ur hafa litið dags­ins ljós og sú fjórða er á leiðinni. Henn­ar er beðið með mik­illi eft­ir­vænt­ingu en fjöl­marg­ir aðdá­end­ur hafa þó lýst yfir von­brigðum með þá staðreynd að fyrr­nefnd­ur William muni ekki sjást í þátt­un­um að nýju.

Of­an­greind sam­skipti hans við Vilde og Nooru áttu sér nefni­lega stað í fyrstu þáttaröðinni en sú næsta var nær al­farið til­einkuð ástar­sam­bandi hans og Nooru þar sem áhorf­end­ur fengu að sjá á hon­um aðrar hliðar, en þó einnig meira af því sama.

Í óform­legri skoðana­könn­un inn­an Face­book-hóps­ins Skam-aðdá­end­ur á Íslandi kem­ur fram að yfir 400 meðlim­ir kunnu best að meta ein­mitt þá þáttaröð. Til sam­an­b­urðar hlaut fyrsta serí­an 40 at­kvæði og þriðja serí­an tæp­lega 190. Í ann­arri skoðana­könn­un voru meðlim­ir spurðir um upp­á­hald­sp­ar þeirra í þátt­un­um og þar hafa þau Noora og William um 250 at­kvæði fram yfir næsta par.

William er staðalí­mynd­in af „vonda strákn­um“, eig­in­lega al­ger klisja eins og Noora sagði í upp­hafi. Hann virðist harður á yf­ir­borðinu en innst inni er hann ljúf­ur sem lamb og Noora reyn­ir og get­ur breytt hon­um til betri veg­ar. Sag­an er hins­veg­ar aldrei svo ein­föld, ekki frek­ar en sam­bæri­leg­ar aðstæður í raun­veru­leik­an­um.

Eins og hin sænska Mal­in Nils­son bend­ir á í pist­il fyr­ir Nyheter24 beit­ir William and­legu of­beldi til að fá sínu fram­gengt og skil­ur ekki að nei þýðir nei.

„Ástar­saga Williams og Nooru bygg­ist á því að hann byrj­ar að hóta henni þegar hún vill ekki fara á stefnu­mót með hon­um, skrif­ar Nils­son. „Ef hún fer á stefnu­mótið lof­ar hann að hætta að nota vin­konu henn­ar, Vilde. Þrátt fyr­ir að hún segi margoft nei gefst hann ekki upp – og það ger­ir hann henni ljóst.“

„Fjandi ertu fal­leg“

Eft­ir að Noora hafn­ar William í fyrsta sinn geng­ur hann á eft­ir henni með grasið í skón­um.

„Þú ert klár stelpa. Þú hlýt­ur að skilja að í hvert skipti sem þú hafn­ar mér vil ég þig bara meir og meir,“ seg­ir hann við hana eft­ir enn eina til­raun­ina til að fá hana á stefnu­mót.

„Var það allt?“ spyr hún, og finnst sýni­lega lítið til koma. „Nei, eitt í viðbót,“ svar­ar hann.

„Fjandi ertu fal­leg.“

Þessu kann Noora ekki að svara og augna­blikið mark­ar upp­hafið að henn­ar innri bar­áttu gegn því að falla fyr­ir William. En hún fell­ur, rétt eins og svo marg­ar hafa fallið áður í samþema kvik­mynd­um, sem Nils­son list­ar, á við The Note­book, 10 things I hate about you og She's all that.

Und­an­far­in miss­eri hef­ur frek­ar verið ein­blínt á „Fáðu já,“ en „Nei þýðir nei,“ þegar kem­ur að því að stemma stigu við nauðgun­ar­menn­ingu. Í sjón­varpsþátt­um og kvik­mynd­um hef­ur bar­átt­an gegn nei-inu hins­veg­ar oft­ar en ekki verið sveipuð róm­an­tísk­um blæ. Í at­huga­semd­um við grein Nils­sen seg­ir einn les­andi hana greini­lega ekki hafa fylgst nógu vel með þar sem Noora gef­ur frá sér lúmsk skila­boð sem sýni að hún laðist að William að ein­hverju leyti.

Slík­ur hugs­un­ar­hátt­ur, óháð því hver skila­boðin í þátt­un­um voru, eru ein­mitt annað ein­kenni nauðgun­ar­menn­ing­ar, rétt­læt­ing­in „hún vildi þetta“ finnst víða þar sem hún á ekki heima.

Raun­sæið að leiðarljósi

Nú má spyrja: Hvers vegna er ein­mitt þetta sam­band, sem ekki aðeins virðist klisju­kennt held­ur einnig eitrað af til­finn­inga­leg­um véla­brögðum, það allra vin­sæl­asta meðal aðdá­enda.

Svarið leyn­ist í raun hér að ofan. Í gegn­um dæg­ur­menn­ingu er okk­ur öll­um – kon­um, körl­um og fólki utan tví­hyggj­unn­ar – kennt frá unga aldri að hegðun Williams sé sér­lega róm­an­tísk. Okk­ur er kennt að hunsa viðvör­un­ar­merk­in, trúa því að ef karl­maður er nógu ágeng­ur sé það hið mesta hrós og þess virði að veita at­hygli. Jafn­vel að ein­stak­ling­ur­inn skuldi viðkom­andi eitt­hvað eins og William sagði Nooru gera eft­ir að hann bað Vilde af­sök­un­ar.

Því skal haldið til haga að í þess­ari þáttaröð er ein­mitt tekið sterkt á nauðgun­ar­menn­ingu og hrelliklámi. Með hjálp vin­kvenna sinna og sér­fræðinga mæt­ir Noora bróður Williams sem reyn­ir að kúga hana með nekt­ar­mynd­um og kær­ir hann.

Í Skam er fjallað af innsæi um ýmis málefni svo …
Í Skam er fjallað af inn­sæi um ýmis mál­efni svo sem viðbrögð við kyn­ferðisof­beldi, geðsjúk­dóma, sam­kyn­hneigð og trú­ar­brögð.

Þar kenn­ir höf­und­ur þátt­anna, Ju­lie And­em, og teymi henn­ar ungu fólki eina leið til að meðhöndla hrelliklám og nauðgan­ir en Skam er þó á eng­an hátt ætlað að pre­dika. And­em hitti yfir þúsund norsk ung­menni áður en hún valdi leik­ar­ana og allt kapp er lagt á að gera þætt­ina sem allra raun­veru­leg­asta. Drama skandi­nav­ískra unglings­ára er eft­ir allt ein­fald­lega al­veg nóg án þess að banda­rísk­um glamúr eða glæp­um sé bætt þar ofan á.

Kannski er það ein­mitt fyr­ir sak­ir raun­sæ­is sem And­em valdi að láta Nooru laðast að William. Það er erfitt að brjót­ast úr viðjum svo sterkr­ar fé­lags­mót­un­ar og eins og Mala Wang-Naveen skrif­ar fyr­ir Af­ten­posten þá eiga jafn­vel reiðir, sterk­ir og sam­fé­lags­miðaðir femín­ist­ar sín veik­lyndu augna­blik.

Hvað sem því líður þá er William nú úr sög­unni þar sem leik­ar­inn, Thom­as Hayes, ákvað að ein­beita sér að öðrum verk­efn­um. Farið hef­ur fé betra. Noora var varla skugg­inn af sjálfri sér alla þriðju seríu vegna sam­bands­slit­anna en í fjórðu seríu fel­ast tæki­færi til að end­ur­heimta hana og styrkja að nýju.

Í millitíðinni er um að gera að end­ur­skoða seríu tvö með nýj­um gler­aug­um. Ekk­ert okk­ar verður reiprenn­andi sam­bands­sér­fræðing­ur á því að dreyma um sjón­varps­per­són­ur. Með því að skoða þær niður í grunn­inn get­um við hins­veg­ar kannski lært eitt­hvað um okk­ur sjálf og áhrif dæg­ur­menn­ing­ar á dag­legt líf. En svo get­um við líka auðvitað haldið áfram að ganga um eins og ein­hverj­ar hel­vít­is klisj­ur.

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: