„Sjómenn víkjast undan ábyrgð í kjaraviðræðum“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS segir samninganefndir sjómanna ekki hafa …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS segir samninganefndir sjómanna ekki hafa hugað að málefnalegum sjónarmiðum útgerða í viðræðum um nýjan kjarasamning. mbl.is/Árni Sæberg

Fram­kvæmda­stjóri Sam­taka í sjáv­ar­út­vegi (SFS) seg­ir samn­inga­nefnd­ir sjó­manna hafa slitið viðræðum við SFS. Ábyrgð þeirra á þeirri stöðu sem upp er kom­in sé rík.

Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá SFS.

Kem­ur þar fram að samn­ingsaðilar beri þá ábyrgð að taka til­lit hvor­ir til annarra og huga að mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum gagnaðila. Það hafi full­trú­ar út­gerða gert í samn­ingaviðræðum við sjó­menn.

Til­litið hafi þó ekki verið gagn­kvæmt og verka­lýðsfé­lög­in hafi því miður ekki léð máls á mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum SFS. Það sé miður að þau treysti sér ekki til að ræða all­ar hliðar kjara­mála. Ljóst megi því vera að óger­legt sé að ganga að öll­um kröf­um þeirra.

Frétta­til­kynn­ing SFS vegna máls­ins fer hér á eft­ir:

„Sjó­manna­sam­band Íslands, Sjó­manna­fé­lag Íslands og VM Fé­lag vél­stjóra og málm­tækni­manna tóku þá ákvörðun að slíta kjaraviðræðum við Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS) í dag. Vegna þeirra miklu hags­muna sem sam­fé­lagið allt hef­ur af því að verk­fall sjó­manna taki enda, tel­ur SFS ábyrgð verka­lýðsfé­lag­anna ríka. Sjó­menn og sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hafa falið samn­inga­nefnd­um að ná ásætt­an­leg­um kjara­samn­ingi og und­an því verk­efni leysa aðilar sig ekki með því að ganga frá samn­inga­borði.

Í kjara­samn­ingn­um, líkt og samn­ing­um al­mennt, ber samn­ingsaðilum að taka til­lit hvor­ir til  annarra og huga að hverju því mál­efna­lega sjón­ar­miði sem gagnaðili set­ur fram. Í kjaraviðræðum SFS og sam­taka sjó­manna, hvort held­ur viðræðum í aðdrag­anda samn­ing­anna tveggja sem sjó­menn felldu á liðnu ári eða í þeirri samn­ingalotu sem sam­tök sjó­manna hafa nú gengið frá, hef­ur SFS unnið í sam­ræmi við þessa grunn­reglu. Verka­lýðsfé­lög­in þrjú hafa fengið ríka áheyrn um all­ar þær kröf­ur sem þau hafa sett fram og rík­ur vilji hef­ur verið af hálfu SFS til að koma til móts við marg­ar þeirra. 

Til­litið hef­ur ekki verið gagn­kvæmt og verka­lýðsfé­lög­in hafa því miður ekki léð máls á mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum SFS. Það er miður að þau treysti sér ekki til að ræða all­ar hliðar kjara­mála. Ljóst má vera að óger­legt er að ganga að öll­um kröf­um þeirra.“

mbl.is