Prinsessur og drottningar voru allar í sínu fínasta pússi í Amalíuhöll í gærkvöldi þegar Margrét Þórhildur Danadrottning bauð til hátíðarkvöldverðar í tilefni af opinberri heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar til Kaupmannahafnar.
Mary krónprinsessa Danmerkur var með kórónu sem hún keypti sjálf á dögunum. Kórónan er með rúbínum og demöntum. Hún var þó ekki bara í kórónunni því hún var í pilsi frá Oscar de la Renta. Við pilsið var hún í svörtum topp. Hún hefur áður sést í þessum topp en þá hefur hún verið í öðru að neðan.
Marie prinsessa og eiginkona Jóakims Danaprins var með demantaskreytta kórónu. Þetta er sama kórónan og hún gifti sig með þegar þau Jóakim gengu í hjónaband. Kjóllinn sem Marie klæddist virðist vera nýr en hún hefur ekki sést í honum áður opinberlega.