Getum borið höfuðið hátt

Hrannar, lengst til hægri, hefur verið til sjós í áratug …
Hrannar, lengst til hægri, hefur verið til sjós í áratug og segir starfið fjölbreytt og skemmtilegt. Mynd af Facebook.

Hrann­ar Hólm Sigrún­ar­son er há­seti á ís­fisk­tog­ar­an­um Stur­laugi H. Böðvars­syni og hef­ur verið sjó­maður í ára­tug. Hann seg­ir kröf­ur sjó­manna sann­gjarn­ar en launaum­ræðuna vill­andi.

Lík­ar sjó­manns­lífið vel

„Mér lík­ar þetta vel. Ann­ars væri maður varla bú­inn að vera svona lengi í þessu. Ég er á góðu skipi með fínni áhöfn og frá­bær­um skip­stjóra. Mér lík­ar sjó­manns­lífið ágæt­lega. Þar er eng­inn dag­ur eins og starfið er fjöl­breytt,“ seg­ir Hrann­ar.

Nú hef­ur því verið haldið á lofti und­an­farið að sjó­menn séu of­ur­launa­stétt í ís­lensku sam­fé­lagi og heyrst hafa launa­töl­ur sem komið hafa mörg­um á óvart í því sam­hengi. Er það raun­in?

„Ég held ég hafi aldrei hitt þann sjó­mann sem er með tvær og hálfa millj­ón á mánuði í laun, eða sjó­mann sem get­ur hætt á sjó því hann á svo mikið af pen­ing­um. Ég geri mér enga grein fyr­ir því hvaðan þess­ar fjar­stæðukenndu töl­ur eru komn­ar. Ég er á mjög fínu skipi og við erum yf­ir­leitt frek­ar of­ar­lega á lista tekju­hæstu ís­fisk­tog­ara lands­ins, en tvær og hálf millj­ón er eitt­hvað sem ég kem aldrei nokk­urn tím­ann til með að vera með sem há­seti,“ seg­ir Hrann­ar.

Hann seg­ir þær töl­ur sem Vil­hjálm­ur Birg­is­son hef­ur tínt til vera nær lagi. „En við erum kannski ekki með sömu laun og tekju­hæsta skip flot­ans. Ég gæti trúað að svona laun sjá­ist hjá yf­ir­mönn­un­um á stærstu skip­um flot­ans þegar geng­ur sem best, enda eru yf­ir­menn á mun hærri laun­um en há­set­ar, en ég kann­ast ekki við þetta,“ bæt­ir hann við.

Launaum­ræðan vill­andi

Hrann­ar bend­ir á að sjó­menn séu á hluta­skipta­kerfi og þeirra laun séu þar af leiðandi hlut­fall af afla­verðmæti hverr­ar veiðiferðar. Hins veg­ar fari því fjarri að há­seta­hlut­ur sem slík­ur gefi rétta mynd af laun­um sjó­manns. Oft séu laun sjó­manna ein­ung­is helm­ing­ur­inn af há­seta­hlutn­um.

„Það ræðst af sjó­sókn. Það get­ur eng­inn verið á hlut allt árið. Það koma stopp, svo er slipp­ur reglu­lega og þá er skipið í landi og svo verða menn að fara í frí líka – og eru þá launa­laus­ir á meðan. Á ís­fiskur­um eru oft kerf­in 4-1, sem er í raun þannig að þú mátt róa fjóra túra og þá verðurðu að taka frí í einn eða tvo túra. Á frysti­skip­un­um taka menn yf­ir­leitt ann­an hvorn túr og fá þá annaðhvort hlut­inn fyr­ir þann túr sem menn róa eða eru alltaf á hálf­um hlut,“ seg­ir hann.

Spurður um frá­drátt­arliði af tekj­um sjó­manna seg­ir Hrann­ar að hingað til hafi menn þurft að greiða hluta fæðis­ins um borð sjálf­ir.

„Svo eru menn að greiða um og yfir hundrað þúsund krón­ur á ári í hlífðarfatnað, sem er nauðsyn­leg­ur búnaður og við kom­umst ekki hjá að kaupa, en þeir hlífðarfatnaðarpen­ing­ar sem við fáum nema 4-5 þúsund krón­um á mánuði. Þetta hef­ur verið til umræðu í kjara­samn­ingaviðræðunum og á að hækka, en hingað til höf­um við þurft að greiða þetta sjálf­ir að megn­inu til,“ seg­ir hann.

Um nýsmíðaálagið: „Það er komin ný kynslóð sjómanna sem finnst …
Um ný­smíðaálagið: „Það er kom­in ný kyn­slóð sjó­manna sem finnst þetta út í hött og vill losna við þetta,“ seg­ir Hrann­ar. Mynd af Face­book.

Kröf­ur sjó­manna eru sann­gjarn­ar

Hrann­ar seg­ist sátt­ur við þær kröf­ur sem sjó­menn hafa sett fram í kjara­bar­áttu sinni og seg­ir þær mjög sann­gjarn­ar.

„Olíu­verðsviðmiðið er nátt­úru­lega bara rugl. Það eru 30% af heild­arafla­verðmæti greidd til út­gerðar óskipt, á meðan heildarol­íu­kostnaður­inn nær ekki 15%. Þetta nær engri átt og þessu vilj­um við fá breytt og fá alla vega að sjá ein­hverja lækk­un á þessu. Fólk stend­ur oft í þeirri trú að laun sjó­manna reikn­ist af afla­verðmæti en það er bara ekki rétt því út­gerðin tek­ur 30% til sín áður en verðmæt­in koma til skipt­anna og síðan er þeim 70% sem eft­ir standa skipt niður,“ seg­ir Hrann­ar.

Að sögn Hrann­ars var kosið um það hjá stétt­ar­fé­lög­um sjó­manna hvaða mál skyldi hafa í for­gangi í viðræðum samn­inga­nefnda þeirra við út­gerðar­menn. Höfuðkröf­urn­ar hafi verið fimm tals­ins; fæðis­pen­ing­ar til sjó­manna hækkaðir, kostnaður við hlífðarfatnaðar­kaup lækkaður, fjar­skipta­kostnaður lækkaður, olíu­verðsviðmiðið lag­fært og bæt­ur til handa sjó­mönn­um fyr­ir af­nám sjó­manna­afslátt­ar­ins, sem af­num­inn var árið 2009.

„Ný­smíðaálagið er bull“

„Mitt per­sónu­lega álit er það að við hefðum átt að fara í ný­smíðaálagið líka, en það er því miður ekki inni á borðinu leng­ur. Það ákvæði er að mín­um dómi al­gert bull, að þurfa að borga 10% af laun­um sín­um næstu sjö árin fyr­ir eitt­hvað sem þú eign­ast svo aldrei. Af hverju eig­um við að borga fyr­ir ný skip sem út­gerðin á svo? Það er eng­in önn­ur starfs­stétt sem þarf að sæta svona löguðu. Þetta er fá­rán­legt. Við höf­um oft heyrt að við höf­um bara samið um þetta og þess vegna sé þetta svona, en það eru 14 ár síðan þetta kom inn í samn­inga og þá var ég ekki byrjaður á sjó. Ég myndi aldrei samþykkja svona lagað,“ seg­ir hann.

„Það er kom­in ný kyn­slóð sjó­manna sem finnst þetta út í hött og vill losna við þetta,“ bæt­ir hann við. „Þetta eru 10% af laun­um hvers sjó­manns. Þetta jafn­gild­ir því að gefa út­gerðinni or­lofið okk­ar til að kaupa ný skip. Ég bara skil þetta ekki, hrein­lega.“

„Það er alltaf til samn­ings­flöt­ur“

Um þá stöðu sem uppi er í samn­ingaviðræðum sjó­manna og út­gerða seg­ir Hrann­ar: „Það er alltaf til samn­ings­flöt­ur. Það er bara vit­leysa að segja að það sé eng­inn samn­ings­flöt­ur. Þetta strand­ar á því að þeir vilja ekki lækka olíu­verðið og þeir vilja ekki borga sjó­manna­afslátt­inn. Þeir eru í raun að segja að það sé rík­is­ins að setja sjó­manna­afslátt­inn inn aft­ur, en staðreynd­in er sú að við get­um ekki gert kröfu á þriðja aðila og verðum því að beina þess­ari kröfu okk­ar að þeim. Okk­ur finnst það sjálf­sögð rétt­indi að fá dag­pen­inga þegar við vinn­um fjarri okk­ar heim­ili, eins og all­ar aðrar vinn­andi stétt­ir fá í þessu landi,“ held­ur Hrann­ar áfram.

Menn styðja sitt lið á sjó sem og landi, eins …
Menn styðja sitt lið á sjó sem og landi, eins og gef­ur að skilja. Mynd af Face­book.

„Ef við ber­um okk­ur sam­an við ná­granna­lönd okk­ar njóta sjó­menn í öll­um þeim lönd­um sem við vilj­um bera okk­ur sam­an við þess­ara sjálf­sögðu rétt­inda – og fá meira að segja tals­vert hærri dag­pen­inga en við vor­um áður með. Okk­ur finnst því sjálfsagt og eðli­legt að við njót­um þessa eins og all­ir aðrir,“ seg­ir hann.

Get­um borið höfuðið hátt ef lög verða sett á verk­fallið

Eft­ir því sem líður á verk­fallið verða þær radd­ir æ há­vær­ari að mögu­lega komi til laga­setn­ing­ar á verk­fallið og sjó­menn skikkaðir aft­ur í skip sín af stjórn­völd­um. Hrann­ar seg­ir að ef til þess komi geti sjó­menn þessa lands haldið til sjós bein­ir í baki og borið höfuðið hátt.

„Við get­um þá farið á sjó vit­andi það að við samþykkt­um ekki vonda samn­inga og við gáf­um ekki eft­ir. En ég held að það sé ekki góð leið. Það get­ur ekki komið neitt gott út úr því. Sjó­menn eru orðnir svo þreytt­ir á því að alltaf séu sett lög á þá að marg­ir munu bara hætta. Menn hafa talað um það að það sé hrein­lega niður­lægj­andi fyr­ir stétt­ina að það skuli alltaf vera sett lög á sjó­menn. Það voru ekki sett lög á lækna í þeirra verk­falli. Það er kannski ekki al­veg það sama, en lækn­ar voru í verk­falli. Þar var um manns­líf að ræða. Hjá okk­ur eru þetta bara pen­ing­ar,“ seg­ir hann.

„Það var eng­inn sjó­maður sem ég þekki fjár­hags­lega í stakk bú­inn að fara í þetta verk­fall. Menn urðu bara að gera það því við erum bún­ir að fá nóg. Þetta er lífsviður­værið okk­ar. En ef menn eiga að fá minna borgað fyr­ir þessa vinnu held­ur en að vinna í landi þá hætta menn bara og fara í land. Hver vill ekki fá að fara heim til sín að lokn­um vinnu­degi í stað þess að fara í koju?“ seg­ir Hrann­ar Hólm Sigrún­ar­son.

mbl.is