Getum borið höfuðið hátt

Hrannar, lengst til hægri, hefur verið til sjós í áratug …
Hrannar, lengst til hægri, hefur verið til sjós í áratug og segir starfið fjölbreytt og skemmtilegt. Mynd af Facebook.

Hrannar Hólm Sigrúnarson er háseti á ísfisktogaranum Sturlaugi H. Böðvarssyni og hefur verið sjómaður í áratug. Hann segir kröfur sjómanna sanngjarnar en launaumræðuna villandi.

Líkar sjómannslífið vel

„Mér líkar þetta vel. Annars væri maður varla búinn að vera svona lengi í þessu. Ég er á góðu skipi með fínni áhöfn og frábærum skipstjóra. Mér líkar sjómannslífið ágætlega. Þar er enginn dagur eins og starfið er fjölbreytt,“ segir Hrannar.

Nú hefur því verið haldið á lofti undanfarið að sjómenn séu ofurlaunastétt í íslensku samfélagi og heyrst hafa launatölur sem komið hafa mörgum á óvart í því samhengi. Er það raunin?

„Ég held ég hafi aldrei hitt þann sjómann sem er með tvær og hálfa milljón á mánuði í laun, eða sjómann sem getur hætt á sjó því hann á svo mikið af peningum. Ég geri mér enga grein fyrir því hvaðan þessar fjarstæðukenndu tölur eru komnar. Ég er á mjög fínu skipi og við erum yfirleitt frekar ofarlega á lista tekjuhæstu ísfisktogara landsins, en tvær og hálf milljón er eitthvað sem ég kem aldrei nokkurn tímann til með að vera með sem háseti,“ segir Hrannar.

Hann segir þær tölur sem Vilhjálmur Birgisson hefur tínt til vera nær lagi. „En við erum kannski ekki með sömu laun og tekjuhæsta skip flotans. Ég gæti trúað að svona laun sjáist hjá yfirmönnunum á stærstu skipum flotans þegar gengur sem best, enda eru yfirmenn á mun hærri launum en hásetar, en ég kannast ekki við þetta,“ bætir hann við.

Launaumræðan villandi

Hrannar bendir á að sjómenn séu á hlutaskiptakerfi og þeirra laun séu þar af leiðandi hlutfall af aflaverðmæti hverrar veiðiferðar. Hins vegar fari því fjarri að hásetahlutur sem slíkur gefi rétta mynd af launum sjómanns. Oft séu laun sjómanna einungis helmingurinn af hásetahlutnum.

„Það ræðst af sjósókn. Það getur enginn verið á hlut allt árið. Það koma stopp, svo er slippur reglulega og þá er skipið í landi og svo verða menn að fara í frí líka – og eru þá launalausir á meðan. Á ísfiskurum eru oft kerfin 4-1, sem er í raun þannig að þú mátt róa fjóra túra og þá verðurðu að taka frí í einn eða tvo túra. Á frystiskipunum taka menn yfirleitt annan hvorn túr og fá þá annaðhvort hlutinn fyrir þann túr sem menn róa eða eru alltaf á hálfum hlut,“ segir hann.

Spurður um frádráttarliði af tekjum sjómanna segir Hrannar að hingað til hafi menn þurft að greiða hluta fæðisins um borð sjálfir.

„Svo eru menn að greiða um og yfir hundrað þúsund krónur á ári í hlífðarfatnað, sem er nauðsynlegur búnaður og við komumst ekki hjá að kaupa, en þeir hlífðarfatnaðarpeningar sem við fáum nema 4-5 þúsund krónum á mánuði. Þetta hefur verið til umræðu í kjarasamningaviðræðunum og á að hækka, en hingað til höfum við þurft að greiða þetta sjálfir að megninu til,“ segir hann.

Um nýsmíðaálagið: „Það er komin ný kynslóð sjómanna sem finnst …
Um nýsmíðaálagið: „Það er komin ný kynslóð sjómanna sem finnst þetta út í hött og vill losna við þetta,“ segir Hrannar. Mynd af Facebook.

Kröfur sjómanna eru sanngjarnar

Hrannar segist sáttur við þær kröfur sem sjómenn hafa sett fram í kjarabaráttu sinni og segir þær mjög sanngjarnar.

„Olíuverðsviðmiðið er náttúrulega bara rugl. Það eru 30% af heildaraflaverðmæti greidd til útgerðar óskipt, á meðan heildarolíukostnaðurinn nær ekki 15%. Þetta nær engri átt og þessu viljum við fá breytt og fá alla vega að sjá einhverja lækkun á þessu. Fólk stendur oft í þeirri trú að laun sjómanna reiknist af aflaverðmæti en það er bara ekki rétt því útgerðin tekur 30% til sín áður en verðmætin koma til skiptanna og síðan er þeim 70% sem eftir standa skipt niður,“ segir Hrannar.

Að sögn Hrannars var kosið um það hjá stéttarfélögum sjómanna hvaða mál skyldi hafa í forgangi í viðræðum samninganefnda þeirra við útgerðarmenn. Höfuðkröfurnar hafi verið fimm talsins; fæðispeningar til sjómanna hækkaðir, kostnaður við hlífðarfatnaðarkaup lækkaður, fjarskiptakostnaður lækkaður, olíuverðsviðmiðið lagfært og bætur til handa sjómönnum fyrir afnám sjómannaafsláttarins, sem afnuminn var árið 2009.

„Nýsmíðaálagið er bull“

„Mitt persónulega álit er það að við hefðum átt að fara í nýsmíðaálagið líka, en það er því miður ekki inni á borðinu lengur. Það ákvæði er að mínum dómi algert bull, að þurfa að borga 10% af launum sínum næstu sjö árin fyrir eitthvað sem þú eignast svo aldrei. Af hverju eigum við að borga fyrir ný skip sem útgerðin á svo? Það er engin önnur starfsstétt sem þarf að sæta svona löguðu. Þetta er fáránlegt. Við höfum oft heyrt að við höfum bara samið um þetta og þess vegna sé þetta svona, en það eru 14 ár síðan þetta kom inn í samninga og þá var ég ekki byrjaður á sjó. Ég myndi aldrei samþykkja svona lagað,“ segir hann.

„Það er komin ný kynslóð sjómanna sem finnst þetta út í hött og vill losna við þetta,“ bætir hann við. „Þetta eru 10% af launum hvers sjómanns. Þetta jafngildir því að gefa útgerðinni orlofið okkar til að kaupa ný skip. Ég bara skil þetta ekki, hreinlega.“

„Það er alltaf til samningsflötur“

Um þá stöðu sem uppi er í samningaviðræðum sjómanna og útgerða segir Hrannar: „Það er alltaf til samningsflötur. Það er bara vitleysa að segja að það sé enginn samningsflötur. Þetta strandar á því að þeir vilja ekki lækka olíuverðið og þeir vilja ekki borga sjómannaafsláttinn. Þeir eru í raun að segja að það sé ríkisins að setja sjómannaafsláttinn inn aftur, en staðreyndin er sú að við getum ekki gert kröfu á þriðja aðila og verðum því að beina þessari kröfu okkar að þeim. Okkur finnst það sjálfsögð réttindi að fá dagpeninga þegar við vinnum fjarri okkar heimili, eins og allar aðrar vinnandi stéttir fá í þessu landi,“ heldur Hrannar áfram.

Menn styðja sitt lið á sjó sem og landi, eins …
Menn styðja sitt lið á sjó sem og landi, eins og gefur að skilja. Mynd af Facebook.

„Ef við berum okkur saman við nágrannalönd okkar njóta sjómenn í öllum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þessara sjálfsögðu réttinda – og fá meira að segja talsvert hærri dagpeninga en við vorum áður með. Okkur finnst því sjálfsagt og eðlilegt að við njótum þessa eins og allir aðrir,“ segir hann.

Getum borið höfuðið hátt ef lög verða sett á verkfallið

Eftir því sem líður á verkfallið verða þær raddir æ háværari að mögulega komi til lagasetningar á verkfallið og sjómenn skikkaðir aftur í skip sín af stjórnvöldum. Hrannar segir að ef til þess komi geti sjómenn þessa lands haldið til sjós beinir í baki og borið höfuðið hátt.

„Við getum þá farið á sjó vitandi það að við samþykktum ekki vonda samninga og við gáfum ekki eftir. En ég held að það sé ekki góð leið. Það getur ekki komið neitt gott út úr því. Sjómenn eru orðnir svo þreyttir á því að alltaf séu sett lög á þá að margir munu bara hætta. Menn hafa talað um það að það sé hreinlega niðurlægjandi fyrir stéttina að það skuli alltaf vera sett lög á sjómenn. Það voru ekki sett lög á lækna í þeirra verkfalli. Það er kannski ekki alveg það sama, en læknar voru í verkfalli. Þar var um mannslíf að ræða. Hjá okkur eru þetta bara peningar,“ segir hann.

„Það var enginn sjómaður sem ég þekki fjárhagslega í stakk búinn að fara í þetta verkfall. Menn urðu bara að gera það því við erum búnir að fá nóg. Þetta er lífsviðurværið okkar. En ef menn eiga að fá minna borgað fyrir þessa vinnu heldur en að vinna í landi þá hætta menn bara og fara í land. Hver vill ekki fá að fara heim til sín að loknum vinnudegi í stað þess að fara í koju?“ segir Hrannar Hólm Sigrúnarson.

mbl.is