Handtökuskipun gefin út í Tyrklandi

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, á blaðamannafundi fyrr í vikunni.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, á blaðamannafundi fyrr í vikunni. AFP

Tyrknesk stjórnvöld hafa gefið út handtökuskipun á hendur átta fyrrverandi yfirmönnum í tyrkneska hernum sem flúðu til Grikklands eftir misheppnað valdarán 15. júlí síðastliðinn.

Dómstóll í borginni Istanbúl samþykkti beiðni saksóknara um handtökuskipunina eftir að hæstiréttur Grikklands neitaði að framselja mennina.

Stjórnvöld í höfuðborg Tyrklands, Ankara, hafa reynt að fá þá framselda vegna meintrar aðildar þeirra að valdaránstilrauninni, sem ætlað var að steypa forsetanum Recep Tayyip Erdogan af stóli.

Mennirnir lentu á þyrlu í Grikklandi einum degi eftir að valdaránið fór út um þúfur og óskuðu eftir hæli.

Tyrkir segja þá vera hryðjuverkamenn en málið hefur sett grísk stjórnvöld í erfiða stöðu vegna þess að þau hafa unnið með tyrkneskum stjórnvöldum að lausn flóttamannavandans. Einnig taka þjóðirnar þátt í viðkvæmum viðræðum um sameiningu Kýpurs.  

mbl.is