Erum að mála okkur út í horn

Formaður SFÚ segir samningsaðila verða að ná saman sem fyrst. …
Formaður SFÚ segir samningsaðila verða að ná saman sem fyrst. Staðan sé orðin svo alvarleg að minni fyrirtækjum í sjávarútvegi sé að blæða út. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formaður Sam­taka fisk­fram­leiðenda og út­flytj­enda seg­ir stöðu fisk­fram­leiðslu­fyr­ir­tækja vera orðna gíf­ur­lega þunga. Hann hvet­ur samn­ingsaðila sjó­manna­deil­unn­ar til að horfa á stóru mynd­ina og bein­ir þeim til­mæl­um til lána­stofn­ana að sýna fyr­ir­tækj­um skiln­ing í erfiðu ár­ferði.

„Það er allt í klessu. Þetta er ekki gott mál,“ seg­ir Jón Steinn Elías­son, formaður SFÚ og fram­kvæmda­stjóri Topp­fisks.

Kaup­end­ur leita annað

Hann seg­ir stöðu selj­enda og út­flytj­enda á fiski vera orðna grafal­var­lega vegna verk­falls sjó­manna. Eðli máls­ins sam­kvæmt sé eng­um birgðum til að dreifa hjá þeim sem selja fersk­an fisk og af­leiðing­ar sex vikna verk­falls sjó­manna þær að mörg fyr­ir­tæki í grein­inni séu kom­in á von­ar­völ.

„Við átt­um ekk­ert til frosið svo við vor­um orðin lens strax,“ seg­ir hann.

„Þeir sem kaupa af okk­ur þurfa að sjá sín­um viðskipta­vin­um fyr­ir hrá­efni. Ef þeir hafa ekki hrá­efni geta þeir bara lokað búðunum, svo þeir sem við höf­um verið að selja okk­ar afurðir til hafa neyðst til að leita annað. Það er bara staðan,“ bæt­ir hann við. „Þessi fyr­ir­tæki hafa verið í viðskipt­um við okk­ur í ára­tugi og eiga erfitt með að skilja þetta ástand sem við stönd­um frammi fyr­ir í dag.“

„Ástandið er orðið grafal­var­legt en ég hef það á til­finn­ing­unni að stór­út­gerðirn­ar séu bara ekk­ert að flýta sér að leysa þetta. Það virðist bara vera voðal­ega ró­legt yfir öllu hjá þeim og það lít­ur út fyr­ir að þeir eigi ein­hverj­ar birgðir. Það er eng­in pressa á þeim að semja,“ seg­ir Jón Steinn.

Slæmt högg fyr­ir minni fyr­ir­tæki

Að sögn Jóns Steins er af­leiðing­in sú að þau fyr­ir­tæki sem eru minni hafi dreg­ist inn í hringiðuna og séu að fá virki­lega slæmt högg vegna þessa.

„Minni fyr­ir­tæki, hvort sem þau eru hjá SFÚ eða hjá SFS, eru að fara mjög illa út úr þessu og maður veit hrein­lega ekki hvort þau kom­ist nokkuð af stað aft­ur. Markaðir eru að lokast og kaup­end­ur nauðbeygðir til að leita annað, því hér er eng­an fisk að fá. Þetta er ekki gott ástand,“ seg­ir hann.

Bank­ar verða að sýna skiln­ing

Í aðstæðum sem þess­um seg­ir Jón Steinn að fyr­ir­tæk­in þurfi að leita til sinna viðskipta­banka til að fresta gjald­dög­um, lengja í lán­um og viðhafa alls kyns æf­ing­ar til þess eins að lifa ástandið af.

„Bank­arn­ir verða að vera lipr­ir við menn í þess­um aðstæðum. Fyr­ir­tæk­in neyðast ann­ars til að leggja upp laup­ana og það er al­var­legt vegna þess að það koma eng­in önn­ur í staðinn. Það tapa all­ir þar,“ held­ur Jón Steinn áfram. „Bank­arn­ir eru okk­ur ekki hliðholl­ir í þessu, en þeir verða bara að gefa mönn­um borð fyr­ir báru svo menn geti haldið velli.“

Hann seg­ir árið 2016 hafa verið fjarri því að vera gó­sentíð fyr­ir fisk­fram­leiðend­ur og sölu­fyr­ir­tæki. Árið hafi verið af­skap­lega erfitt vegna styrk­ing­ar krón­unn­ar og svo hafi verk­fallið skollið á í fram­hald­inu. Þetta geri það að verk­um að staðan sé gíf­ur­lega þung fyr­ir fisk­fram­leiðend­ur.

„Við erum að mála okk­ur al­ger­lega út í horn gagn­vart öðrum þjóðum. Við höf­um verið fremst­ir hvað hrá­efni varðar en nú þegar við get­um ekki skaffað för­um við bara aft­ast í röðina. Við skul­um ekki halda það að strax og við för­um að geta fram­leitt aft­ur för­um við sjálf­krafa fremst í röðina. Það er lang­ur veg­ur frá og það er sann­ar­lega ekki sjálf­gefið að menn nái vopn­um sín­um aft­ur að þessu leyt­inu,“ seg­ir Jón Steinn.

Menn verða að leggja upp með það að ná sam­an

Hann seg­ir að þrýsta verði á samn­inga­nefnd­irn­ar að ná sam­an. Skot­grafa­hernaður­inn sem ein­kenni stöðu mála nú verði að hætta og menn fara að ein­beita sér að því að leysa deil­una.

„Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi eru að hella bens­íni á eld­inn með alls kyns út­spili sem er að fara illa í sjó­menn. Þetta er alls ekki gott,“ seg­ir hann.

„Ég vil vekja at­hygli manna á því að það ger­ist ekk­ert nema menn tali sam­an. Það fæst eng­inn botn í neitt ann­ars. Og menn verða að hætta þess­ari enda­lausu skot­hríð hver á ann­an, og menn verða að fara að borðinu með því hug­ar­fari að þeir ætli að semja svo það sé ekki alltaf bara stál í stál. Mér hef­ur fund­ist hug­ar­farið vera þannig,“ seg­ir hann.

Við þolum þetta ekki

„Ég sagði strax í byrj­un verk­falls­ins að mér sýnd­ist sem menn ætluðu sér ekk­ert að semja á þess­um nót­um, held­ur að menn ætluðu bara að láta leysa sig niður úr snör­unni. En ég vil ekki trúa því að svo sé. Nú er rík­is­valdið búið að gefa það út að það ætl­ar sér ekki að skipta sér af þessu og menn skuli ná sam­an án aðkomu rík­is­ins. Það get­ur vel verið að stór­út­gerðin hugsi með sér að þeir þoli þetta, en við þolum þetta ekki. Það koma alla´vega eng­ar nei­kvæðar frétt­ir frá þeim þessa dag­ana. Ef eitt­hvað heyr­ist af þeim þá eru það frétt­ir um að þeir séu að stofna ný fyr­ir­tæki. Það er ekki að sjá að þeir hafi mikl­ar áhyggj­ur af þessu,“ seg­ir Jón Steinn.

Hann vill beina þeim til­mæl­um til lána­stofn­ana að þær verði að átta sig á stöðunni. Fyr­ir­tæk­in séu að koma út úr erfiðu ári vegna geng­isþró­un­ar og menn verði að fá leng­ing­ar í lán­um sín­um og smá frið svo þeim sé unnt að standa und­ir sín­um skuld­bind­ing­um. Ef þessi fyr­ir­tæki, sem hafa ára­tuga reynslu og hafa unnið að því árum sam­an að byggja upp viðskipta­sam­bönd, leggja upp laup­ana þá verði þeirra skarð ekki fyllt í nán­ustu framtíð.

mbl.is