Erum að mála okkur út í horn

Formaður SFÚ segir samningsaðila verða að ná saman sem fyrst. …
Formaður SFÚ segir samningsaðila verða að ná saman sem fyrst. Staðan sé orðin svo alvarleg að minni fyrirtækjum í sjávarútvegi sé að blæða út. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir stöðu fiskframleiðslufyrirtækja vera orðna gífurlega þunga. Hann hvetur samningsaðila sjómannadeilunnar til að horfa á stóru myndina og beinir þeim tilmælum til lánastofnana að sýna fyrirtækjum skilning í erfiðu árferði.

„Það er allt í klessu. Þetta er ekki gott mál,“ segir Jón Steinn Elíasson, formaður SFÚ og framkvæmdastjóri Toppfisks.

Kaupendur leita annað

Hann segir stöðu seljenda og útflytjenda á fiski vera orðna grafalvarlega vegna verkfalls sjómanna. Eðli málsins samkvæmt sé engum birgðum til að dreifa hjá þeim sem selja ferskan fisk og afleiðingar sex vikna verkfalls sjómanna þær að mörg fyrirtæki í greininni séu komin á vonarvöl.

„Við áttum ekkert til frosið svo við vorum orðin lens strax,“ segir hann.

„Þeir sem kaupa af okkur þurfa að sjá sínum viðskiptavinum fyrir hráefni. Ef þeir hafa ekki hráefni geta þeir bara lokað búðunum, svo þeir sem við höfum verið að selja okkar afurðir til hafa neyðst til að leita annað. Það er bara staðan,“ bætir hann við. „Þessi fyrirtæki hafa verið í viðskiptum við okkur í áratugi og eiga erfitt með að skilja þetta ástand sem við stöndum frammi fyrir í dag.“

„Ástandið er orðið grafalvarlegt en ég hef það á tilfinningunni að stórútgerðirnar séu bara ekkert að flýta sér að leysa þetta. Það virðist bara vera voðalega rólegt yfir öllu hjá þeim og það lítur út fyrir að þeir eigi einhverjar birgðir. Það er engin pressa á þeim að semja,“ segir Jón Steinn.

Slæmt högg fyrir minni fyrirtæki

Að sögn Jóns Steins er afleiðingin sú að þau fyrirtæki sem eru minni hafi dregist inn í hringiðuna og séu að fá virkilega slæmt högg vegna þessa.

„Minni fyrirtæki, hvort sem þau eru hjá SFÚ eða hjá SFS, eru að fara mjög illa út úr þessu og maður veit hreinlega ekki hvort þau komist nokkuð af stað aftur. Markaðir eru að lokast og kaupendur nauðbeygðir til að leita annað, því hér er engan fisk að fá. Þetta er ekki gott ástand,“ segir hann.

Bankar verða að sýna skilning

Í aðstæðum sem þessum segir Jón Steinn að fyrirtækin þurfi að leita til sinna viðskiptabanka til að fresta gjalddögum, lengja í lánum og viðhafa alls kyns æfingar til þess eins að lifa ástandið af.

„Bankarnir verða að vera liprir við menn í þessum aðstæðum. Fyrirtækin neyðast annars til að leggja upp laupana og það er alvarlegt vegna þess að það koma engin önnur í staðinn. Það tapa allir þar,“ heldur Jón Steinn áfram. „Bankarnir eru okkur ekki hliðhollir í þessu, en þeir verða bara að gefa mönnum borð fyrir báru svo menn geti haldið velli.“

Hann segir árið 2016 hafa verið fjarri því að vera gósentíð fyrir fiskframleiðendur og sölufyrirtæki. Árið hafi verið afskaplega erfitt vegna styrkingar krónunnar og svo hafi verkfallið skollið á í framhaldinu. Þetta geri það að verkum að staðan sé gífurlega þung fyrir fiskframleiðendur.

„Við erum að mála okkur algerlega út í horn gagnvart öðrum þjóðum. Við höfum verið fremstir hvað hráefni varðar en nú þegar við getum ekki skaffað förum við bara aftast í röðina. Við skulum ekki halda það að strax og við förum að geta framleitt aftur förum við sjálfkrafa fremst í röðina. Það er langur vegur frá og það er sannarlega ekki sjálfgefið að menn nái vopnum sínum aftur að þessu leytinu,“ segir Jón Steinn.

Menn verða að leggja upp með það að ná saman

Hann segir að þrýsta verði á samninganefndirnar að ná saman. Skotgrafahernaðurinn sem einkenni stöðu mála nú verði að hætta og menn fara að einbeita sér að því að leysa deiluna.

„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eru að hella bensíni á eldinn með alls kyns útspili sem er að fara illa í sjómenn. Þetta er alls ekki gott,“ segir hann.

„Ég vil vekja athygli manna á því að það gerist ekkert nema menn tali saman. Það fæst enginn botn í neitt annars. Og menn verða að hætta þessari endalausu skothríð hver á annan, og menn verða að fara að borðinu með því hugarfari að þeir ætli að semja svo það sé ekki alltaf bara stál í stál. Mér hefur fundist hugarfarið vera þannig,“ segir hann.

Við þolum þetta ekki

„Ég sagði strax í byrjun verkfallsins að mér sýndist sem menn ætluðu sér ekkert að semja á þessum nótum, heldur að menn ætluðu bara að láta leysa sig niður úr snörunni. En ég vil ekki trúa því að svo sé. Nú er ríkisvaldið búið að gefa það út að það ætlar sér ekki að skipta sér af þessu og menn skuli ná saman án aðkomu ríkisins. Það getur vel verið að stórútgerðin hugsi með sér að þeir þoli þetta, en við þolum þetta ekki. Það koma alla´vega engar neikvæðar fréttir frá þeim þessa dagana. Ef eitthvað heyrist af þeim þá eru það fréttir um að þeir séu að stofna ný fyrirtæki. Það er ekki að sjá að þeir hafi miklar áhyggjur af þessu,“ segir Jón Steinn.

Hann vill beina þeim tilmælum til lánastofnana að þær verði að átta sig á stöðunni. Fyrirtækin séu að koma út úr erfiðu ári vegna gengisþróunar og menn verði að fá lengingar í lánum sínum og smá frið svo þeim sé unnt að standa undir sínum skuldbindingum. Ef þessi fyrirtæki, sem hafa áratuga reynslu og hafa unnið að því árum saman að byggja upp viðskiptasambönd, leggja upp laupana þá verði þeirra skarð ekki fyllt í nánustu framtíð.

mbl.is