Vinkonurnar munu grafa þetta samband

Ljósmynd/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, svarar spurningum lesenda. Hér spyr kona hvað hún eigi að gera eftir að upp komst um svik kærastans. 

Hæ Valdimar. 

Sagan byrjar fyrir rúmlega ári í veislu þegar ég hitti mann sem ég verð strax skotinn í og hann í mér. Hann fer að reyna við mig eftir nokkur glös. Við erum bæði í öðrum ástarsamböndum á þessum tíma svo þetta endaði ekki í neinu öðru en daðri. Nokkrum mánuðum síðar hittumst við aftur, þá er ég einhleyp og hann líka og ekki löngu seinna erum við saman. Við búum ekki á sama stað en vegna vinnu hans er hann oft í bænum.

Svona byrjar morguninn minn í morgun: 

Klukkan rétt í 9 hringir kærastinn minn og ég svara auðvitað en það er ekki hann á hinni línunni. Heldur hans fyrrverandi, sem var aldrei fyrrverandi því þau hættu aldrei saman. Hjartað í mér stoppaði, hún var svo róleg og bara spyr mig hvernig okkar sambandi sé háttað og hvað hann hafi verið að segja mér.

Ég heyrði í honum í bakgrunninum þar sem hann virtist vera að reyna að bjarga einhverju. Hún virtist róleg þótt hún væri sár. Hún sagðist ekki vera reið út í mig heldur út í hann fyrir að vera sér ótrúr. Hann virtist vera alveg út á þekju og sagðist ekki vita hvað hann vildi eða hvern hann elskaði. 

Ég veit ekki hvað þau ætla að gera, hvort þau ætli að finna út úr þessu og reyna að halda áfram með þeirra samband.

Núna 10 tímum seinna hefur ekkert af þessu sokkið inn. Ég er dofin og hef mest bara hlegið að þessu. Fyrst að hann hafi getað lifað tvöföldu lífi og hafi í alvöru haldið að það myndi ganga. Þetta er svo furðulegt því við vorum að tala um að flytja saman og vorum að plana framtíðina. 

Stór hluti af mér vill að hann hringi og sé ofsalega mikið fyrirgefðu. Annar hluti af mér vill spila þetta kúl og segja við hann blákalt að hann hafi klúðrað þessu og ég vilji ekki heyra píp frá honum aftur. Þriðji hlutinn vill fá að vita hvert var eiginlega planið og hvort sambandið eigi sjéns? Og hvað með traust?

Ég veit alla vega hvað vinkonurnar munu segja. Þær munu fara í eitthvað Beyoncé-mode með hafnaboltakylfu og grafa þetta samband fyrir mig. Mig vantar hlutlaust álit.

Takk

 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

 

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Það er ekki óalgengt að fólk verði hrifið af eða laðist að öðru fólki, jafnvel þótt það sé í sambandi. Spurningin er hins vegar alltaf, hvað ætlar þú að gera við það? Hvernig er heiðarlegt og rétt að standa að málum? Miðað við lýsinguna hefur aðilinn sem þú ert búin að vera í sambandi við, ekki lokið sínu fyrra sambandi og eins og þú segir sjálf þá er tvöfalt líf varla að ganga. Sambönd sem hefjast á þessum nótum eiga gjarnan mjög erfitt uppdráttar og eru lituð af vantrausti og jafnvel beiskju sem getur orðið afar erfið viðfangs síðar meir. Það er óspennandi að vera í sambandi sem byggir ekki á heiðarleika frá upphafi. Þú svarar þessu nokkurn veginn sjálf og ættir fyrst og fremst að fylgja eigin innsæi. Hvað finnst þér rétt að gera? Er þetta ásættanlegt fyrir þig? Ert þú þess virði að komið sé heiðarlega fram við þig og af virðingu? Langar þig í sambandi sem hefst á þessum nótum?

Þegar þú svarar þessum spurningum fyrir þig þá ertu nær svarinu um hvað þú vilt gera varðandi þetta samband.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson – ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningur HÉR. 

mbl.is