Ferskfisktogarinn Málmey varð fremstur meðal jafningja og fiskaði allt í kaf árið 2016. Skipið er útbúið ofurkælikerfi svo ís um borð er orðinn óþarfur.
Eins og sjá má á vefsvæði Aflafrétta varð Málmey aflahæsti togari landsins á árinu 2016.
Rétt er þess að geta, eftir ábendingu frá glöggum lesanda, að hér er að sjálfsögðu um að ræða ísfisktogara en ekki frystitogara. Brimnesið er aflahæsta skip landsins þegar litið er til frystitogara, sem helgast að hluta til af því að skipið veiddi mikinn makríl á árinu 2016, en Kleifarbergið er aflahæsti frystitogari landsins ef mið er tekið af bolfiskafla. Bæði Brimnesið og Kleifarbergið eru gerð út af Brim hf.
Að sögn útgerðarstjóra Fisk Seafood á Sauðárkróki, sem gerir Málmey út, eru menn hæstánægðir með veiðina á árinu 2016.
„Það gekk mjög vel. Við ofurkælum allan fiskinn á Málmey í stað þess að ísa hann. Ofurkælingarbúnaðurinn frá Skaganum 3X var settur upp í skipið fyrir tveimur árum síðan og hann hefur gefist mjög vel. Afraksturinn er hagræði í veiðum, sem sést á magninu sem við erum að landa, og aukin gæði í afurðinni,“ segir Gylfi Guðjónsson, útgerðarstjóri Fisk Seafood, í samtali við mbl.is.
Sjá frétt: Ofurkæling frá Skaginn 3X og Verðlaun fyrir nýja nálgun við ofurkælingu
Hann segir undanfarið ár hafa verið gott veiðilega séð, en verkfall sjómanna hafi sett stórt strik í reikninginn.
„Við bíðum og vonum að mönnum lánist að ná saman fljótlega. Þetta er farið að hafa töluverð áhrif, sérstaklega á landsbyggðinni. Þetta er miklu stærri þáttur þar heldur en á Reykjavíkursvæðinu og hefur meiri áhrif. Við verðum að vona að menn nái saman fljótlega,“ segir Gylfi Guðjónsson.