Til stendur að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um skiptaverðmæti, sem kjaraviðræður sjómanna og útgerða hafa að miklu leyti strandað á. Hæstaréttarlögmaður segir lögin barn síns tíma og rökin að baki þeim ekki lengur eiga við.
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata mun á næstu dögum leggja fram tilllögu að breytingu á lögum nr. 24/1986. Í henni felst að í stað þess að lög mæli fyrir um tiltekið hlutfall aflaverðmætis sem dregið er af óskiptum aflahlut fiskiskipa, verði útgerðum og sjómönnum heimilt að semja um þann kostnaðarlið sín á milli.
Samninganefnd sjómanna sleit viðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi í síðustu viku og hafa deiluaðilar hvorki fundað né ræðst við síðan.
Að sögn Valmundar Valmundssonar, formanns Sjómannasambands Íslands, hljóma ýtrustu kröfur sjómanna í yfirstandandi kjaradeilu á þann veg að sá olíukostnaður sem fer óskiptur til útgerðar verði 27% af aflaverðmæti í stað 30%, eins og verið hefur undanfarið. Segir hann að sú breyting myndi þýða 4,3% hækkun á skiptahlut til sjómanna.
Þeirri kröfu segir hann útgerðirnar hafa hafnað alfarið og því hafi viðræðum verið slitið.
Frétt 200 milna: Óttumst ekki lagasetningu
Þá hefur þeirri skoðun verið haldið á lofti meðal sjómanna að sá frádráttur sem áhafnir fiskiskipa sæta í formi olíukostnaðar sé í raun lítið annað en styrkur frá sjómönnum til handa útgerða.
Þetta kom meðal annars fram í máli trúnaðarmanns á Stefni ÍS-28, sem sagði að ef horft væri aftur til ársins 1987, þegar tenging við olíuverð tók gildi, hafi útgerðarmenn hagnast á þessum reglum í 269 mánuði en sjómenn hafi einungis hagnast á fyrirkomulaginu í 23 mánuði og 65 mánuðir hafi komið út á sléttu.
Frétt 200 mílna: Segir sjómenn greiða útgerðum styrk
Breytingin sem lögð er til gerir það að verkum, eins og fyrr segir, að útgerðum og sjómönnum verði heimilt að semja um þetta tiltekna atriði sín á milli og ætti þar með að opna fyrir þann möguleika að samninganefndir deiluaðila geti sest að samningaborðum og komið sér niður á ásættanlega lausn á þessu ógurlega þrætuepli.
„Frumvarpið felur í sér að útgerðum og sjómönnum verði gert heimilt að semja um olíukostnað, í stað þess að það sé skilyrt með lögum eins og staðan er nú,“ segir Björn Leví.
„Þetta eru gömul lög og það er í skoðun hvort við leggjum fram þingsályktunartillögu um að þau verði felld úr gildi því við erum efins um að þessi lög þurfi yfirhöfuð að vera til staðar,“ bætir Björn Leví við.
Hann segir það eðlilegt að tekið sé til endurskoðunar hvort gömul lög eigi við eftir því sem aðstæður breytast og því skoðandi hvort byrjað verði á því að gera frádrátt vegna olíukostnaðar umsemjanlegan og í framhaldinu skoðað hvort lögin verði felld niður.
„Þessi lög hafa ekki skilgreint hlutverk nema að lögfesta ákveðna prósentu sem er heftandi fyrir bæði útgerð og sjómenn,“ segir Björn Leví.
Spurður að því hvort hann telji forsendu fyrir umræddum lögum vera brostna segir Björn Leví að nú til dags séu ekki sömu skilyrði og voru fyrir þrjátíu árum, svo það geti vel verið að svo sé.
„Það hefur margt breyst í sjávarútvegi síðan þessi lög voru sett og þingsályktunartillagan myndi fjalla um það hvort tilefni sé til þess að fella þessi lög einfaldlega bara niður,“ segir hann.
Jónas Þór Jónasson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Sjómannafélags Íslands, segir flest rök hníga til þess að lögin séu hreinlega úr sér gengin. Ef eitthvað væri mætti þó ganga enn lengra og færa umræddan frádráttarlið í það horf að aðeins væri leyfilegt að draga af aflaverðmæti raunkostnað vegna olíukostnaðar:
„Samkvæmt þessum drögum að frumvarpi um breytingu á lögum nr. 24/1986 er ætlunin að gera samtökum sjómanna og útgerðarmanna kleift að semja um olíukostnaðinn, eða frádragið frá aflaverðmæti vegna olíukostnaðar.“
„Þetta atriði hefur um langt árabil verið bundið í lög og væri mjög til bóta að færa ákvörðun um olíukostnaðinn í þetta horf, enda ákvæði laga nr. 24/1986 um olíufrádrag barn síns tíma og voru reist á sjónarmiðum sem ekki eiga eins við í dag.
Réttast væri auðvitað að ganga alla leið þannig að aðeins megi draga frá aflaverðmæti raunkostnað vegna olíunnar, en ekki hærri fjárhæð eins og verið hefur,“ segir Jónas Þór Jónasson.