Boðað hefur verið til fundar í sjómannadeilunni hjá Ríkissáttasemjara á föstudag kl. 9:30. Formaður Sjómannasambands Íslands segir sjómenn standa fast á sínum kröfum í aðdraganda fundar.
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, staðfesti í samtali við 200 mílur nú fyrir skömmu að Ríkissáttasemjari hefði boðað deiluaðila til fundar næstkomandi föstudag.
„Það hefur ekkert breyst hjá okkur sjómönnum. Við höldum fast við kröfur okkar og eftir því sem heyrist úr herbúðum útvegsbænda ætla þeir ekki að gefa eftir. Fundurinn á föstudag staðfestir það líklega en lengi má manninn reyna,“ segir Valmundur.
„Hófstilltar kröfur sjómanna eru einungis til þess fallnar að gengið sé að þeim strax. Að láta flotann liggja í landi engum til gagns er ábyrgðarhluti og þá ábyrgð verða útvegsmenn að axla. Miðað við allt tapið sem að þeirra sögn lendir allt á þeim, með flotann bundinn, væri þjóðþrifamál að þeir settu nú allt tapið sitt inn í kjarasamning sjómanna og stuðluðu að farsælli lausn deilunnar,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.