Ólafur Ólafsson, fjárfestir og fyrrverandi stjórnarformaður Eglu sem var stærsti einstaki aðilinn í kaupum S-hópsins á nær helmingshlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands árið 2002, er að láta vinna samantekt til opinberrar birtingar um söluferli Búnaðarbankans. Verða frumgögn í málinu birt og spurningum svarað í samantektinni. Þetta kemur fram í tilkynningu upplýsingafulltrúa Ólafs.
Í tilkynningunni er vísað til fréttar fyrr í dag þar sem fram kom að Ólafur hefði mætt fyrir dóm til að svara spurningum rannsóknarnefndar Alþingis á þátttöku þýska bankans Hauck & Aufhüser í kaupum á Búnaðarbankanum. Segir þar að Ólafur hafi svarað spurningum sem beint var til hans, en að um tæplega 15 ára gamalt mál væri að ræða og því væri ekki hægt að stóla á minni í öllum atriðum.
Þá segir að stjórnandi rannsóknarnefndarinnar hefði þvertekið fyrir að upplýsa fyrir fram um hvaða efnisatriði yrði spurt um í þessu viðamikla máli.
Í tilkynningunni segir jafnframt að stjórnandi rannsóknarinnar hafi ekki lagt fram nein ný gögn í málinu og að í gegnum árin hafi Ólafur veitt stjórnvöldum allar umbeðnar upplýsingar sem óskað hafi verið eftir í þessu máli. Í gær hafi hann svo verið spurður út í löngu liðna atburði sem væru margir skráðir í opinberum gögnum og í gamlar blaðaúrklippur sem fjölluðu um einkavæðingu bankanna.
„Stofnað var til rannsóknar á þátttöku þýsks banka í kaupum á Búnaðarbanka Íslands með vísan til nýrra gagna. Því vekur það furðu að rannsóknin virðist hafa tekið á sig mynd blaðaúrklippurannsóknar þar sem spurt er út í afstöðu mína til fréttaskrifa fyrir meira en tíu árum. Engin ný gögn voru lögð á borðið eins og boðað var og fjallað hefur verið áður um allar upplýsingar sem bornar voru undir mig,“ er haft eftir Ólafi.
Segir hann jafnframt að „þessi uppákoma fyrir héraðsdómi í gær“ hafi styrkt hann í þeirri trú að „rannsóknarnefndin hafi verið sett á fót til að leysa pólitískan ágreining á Alþingi fyrir kosningar um hvernig ætti að standa að rannsókn á einkavæðingu bankanna.“ Segist Ólafur frábiðja sér að vera „þátttakandi í slíku pólitísku leikriti“.