„Deilan í alvarlegum hnút“

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.
Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari.

„Fundurinn var árangurslaus og deilan er í alvarlegum hnút. En verkefnið fer ekkert af borði samninganefndanna. Fyrir vikið fór ég fram á það við viðsemjendur að þeir ræddu ekki efni deilunnar í fjölmiðlum á þessu stigi enda er hún mjög viðkvæm.“

Þetta segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is en samningafundi í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var slitið rétt fyrir klukkan þrjú. Fundurinn hófst í húsakynnum embættisins klukkan 13:00 í dag. 

Gert er ráð fyrir því að það sem gerist við samningaborðið sé háð trúnaði þar til samningur hefur verið samþykktur að sögn Bryndísar. „Þannig að þetta var einfaldlega árangurslaus fundur og ég mun boða nýjan fund eftir hálfan mánuð.“

Spurð hvort gert sé ráð fyrir að viðsemjendur reyni að nálgast hvorn annan í millitíðinni segir Bryndís: „Það verkefni er áfram á herðum aðilum deilunnar og fer ekkert frá þeim fyrr en samningar hafa náðst.“

mbl.is