Ríkisstjórnin hyggst ekki grípa inn í

Benedikt sagði ríkisstjórnina ekki munu skipta sér af.
Benedikt sagði ríkisstjórnina ekki munu skipta sér af. mbl.is/Golli

Ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju neinar aðgerðir til að stöðva verkfall sjómanna, sem nú hefur staðið yfir í hálfan annan mánuð. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, í samtali við mbl.is að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

„Við erum ekki að ræða neins konar inngrip í þessa kjaradeilu. Við leggjum áherslu á að það eru deiluaðilarnir sem bera ábyrgð á að ná samningum, og á þessu stigi málsins viljum við fylgjast vel með,“ sagði Bjarni.

Bætti hann við að verið sé að meta heildaráhrif verkfallsins á samfélagið.

„Það er mikið nákvæmnisverk, en engu að síður mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hvar áhrifa verkfallsins gætir mest í þjóðfélaginu.“

Bjarni Benediktsson að loknum fundi ríkisstjórnar fyrir hádegi.
Bjarni Benediktsson að loknum fundi ríkisstjórnar fyrir hádegi.

Kapp lagt á góð samskipti

Þá sagði hann ríkisstjórnina hafa lagt kapp á að vera í góðum samskiptum við ríkissáttasemjara sem og deiluaðilana.

„Ekki síst til að hvetja menn til að leggja meira á sig við að ljúka þessu verkfalli.“

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, var á sama máli. Sagði hann ekki koma til greina að skipta sér af deilunni.

„Ríkisstjórnin ætlar ekki að skipta sér af þessari kjaradeilu. Það er margyfirlýst.“

mbl.is