Bæjarstjórar í sjávarbyggðum úti á landi eru margir orðnir uggandi vegna verkfalls sjómanna og hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif verkfallið er farið að hafa á afkomu sjómanna, fiskverkafólks, þjónustufyrirtækja í sjávarútvegi og tekjur bæjar- og sveitarfélaga, vegna minnkandi útsvars. Sjómannaverkfallið hefur nú staðið í átta vikur.
Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að verulegra áhrifa af verkfalli sjómanna gætti í Stykkishólmi. „Það blasir algjörlega við, allir sem tengjast sjávarútveginum hafa þegar orðið fyrir miklum, neikvæðum áhrifum vegna þessa verkfalls. Það eru vitanlega sjómennirnir, starfsfólkið í fiskvinnslunni og þjónustufyrirtækin stór og smá, auk þess sem bærinn finnur fyrir tekjumissi,“ sagði Sturla.
Sturla segir að menn bíði í óþreyju eftir að þessi langvinna kjaradeila útgerðarmanna og sjómanna leysist og vonandi takist að finna farsæla lausn á kjaradeilunni hið fyrsta. „Sjávarbyggðirnar geta ekki staðið undir því að það sé ekki veiddur og unninn fiskur,“ sagði Sturla.
Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri í Grundarfirði, segir að neikvæðra áhrifa af sjómannaverkfallinu hafi gætt í bæjarfélaginu um hríð. „Aðalatvinnuvegur okkar bæjarfélags er fiskveiðar og fiskvinnsla, þannig að við finnum vitanlega verulega fyrir verkfallinu. Skipin eru öll í höfn og fiskvinnslan liggur niðri. Það eru allar þjónustugreinar við sjávarútveginn og fiskvinnsluna sem finna fyrir þessu með harkalegum hætti, bæði vélsmiðjur, flutningafyrirtæki og aðrir. Áhrifin eru orðin talsvert mikil, þegar verkfallið er farið að dragast svona á langinn,“ sagði Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið í gær. Þorsteinn kvaðst vonast til þess að deiluaðilar fyndu lausn á deilu sinni hið allra snarasta.
Ásta Björg Pálmadóttir er bæjarstjóri á Sauðárkróki. Hún segir að neikvæðra áhrifa af sjómannaverkfallinu sé ekki farið að gæta áþreifanlega í bæjarfélaginu og uppsagna í tengdum greinum og þjónustugreinum við sjávarútveginn sé sem betur fer ekki enn farið að gæta. „Klárlega verða útsvarstekjur bæjarfélagsins fyrir janúarmánuð minni en við höfðum vænst. Við búum svo vel hérna á Sauðárkróki að fyrirtækið FISK Seafood sagði ekki upp landverkafólki sínu. Þannig er allt landverkafólkið á kauptryggingu, en ekki á bónus. Það verður líka til þess að útsvarstekjur bæjarfélagsins munu lækka til viðbótar við það sem þær munu lækka vegna þess að sjómennirnir eru án tekna,“ sagði Ásta Björg í samtali við Morgunblaðið í gær.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að það lægi ljóst fyrir að sjómenn og fiskvinnslufólk hefðu misst töluvert af launum sínum.
„Ég hef einnig miklar áhyggjur af því, að lítil fyrirtæki og einstaklingar sem hafa verið að þjónusta sjávarútveginn eru ekkert í góðri stöðu, vegna þess að þegar flotinn er stopp og fiskvinnslan nánast stopp, þá hafa þessir aðilar litlar sem engar tekjur og það er ekkert víst að þeir lifi þetta af,“ sagði Kristinn. Þetta eigi við um flutningsaðila, verkstæði, verslanir og hvað eina, það gæti alls staðar samdráttar.
Kristinn segir að áhrifa verkfallsins muni tímabundið gæta í fjárhag sveitarfélagsins og hafnarinnar, en það muni eitthvað jafnast út, þótt það bætist aldrei að fullu. Verkfallið sé á þeim tíma sem sé besti tíminn hjá bátaflotanum í Snæfellsbæ að selja afurðir sínar, þ.e. desember og janúar. „Þó að menn veiði þennan afla síðar, þá fá þeir ekkert sama verð fyrir hann,“ sagði Kristinn.