„Ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum“

Verkfall sjómanna hefur staðið í hartnær tvo mánuði og enn …
Verkfall sjómanna hefur staðið í hartnær tvo mánuði og enn sér hvergi til lands í deilunni. mbl.is/Þröstur Njálsson

Viðskiptalögfræðingur og sjómaður segir pottinn víða brotinn í baráttu sjómanna fyrir kjaraleiðréttingu. Kjaramál þeirra hafi verið í ólestri um langa hríð og það sé stjórnvalda að grípa inn í og leiðrétta það sem leiðrétta þarf.

Verkfall sjómanna hefur þegar þetta er skrifað staðið yfir í tæpa tvo mánuði. Þann tíma sem fiskiskipaflotinn hefur legið bundinn við bryggju hafa afleiðingar verkfallsins farið stigvaxandi; ekki aðeins fyrir sjómenn og útgerðir heldur fiskútflytjendur, flutningafyrirtæki, umbúðavinnslur, fiskvinnslufólk, sveitarfélög – í raun samfélagið allt. Litlar sem engar veiðar hafa keðjuverkandi áhrif í út í samfélagið og staðan er fyrir nokkru farin að valda útbreiddum einkennum, samfélagslegum jafnt sem fjárhagslegum.

Sjö sinnum sett lög á sjómenn

Það virðist segin saga að ef ekki um semst innan hæfilegs tíma grípa stjórnvöld inn í og setja lög á verkfall sjómanna. Sjö sinnum hafa sjómenn þurft að sæta því að vera skikkaðir aftur til vinnu á grundvelli lagasetningar stjórnvalda, með þeim rökstuðningi yfirvaldsins að slíkar aðgerðir sjómanna ógni efnahagslegum stöðugleika í landinu. Því eru sett lög og sjómenn halda aftur á hafið til að moka sjávarfangi í sísvangt þjóðarbúið.

Yfirstandandi verkfall sjómanna er nú þegar orðið lengsta verkfall vinnandi stéttar á þessari öld og ljóst að kröfur um lausn deilunnar við fyrsta mögulega tækifæri verða háværari með hverjum deginum sem líður.

Tekjur sjómanna koma úr hlutaskiptum. Í því felst að tilteknu hlutfalli aflaverðmætis hverrar veiðiferðar er skipt milli sjómanna, og er því um að ræða nokkurs konar árangurstengdar greiðslur. Styrking krónunnar á undangengnu ári hefur valdið því að tekjur sjómanna, sem og útgerða, hafa dregist saman. Það skýrist af miklum hluta af því að aflinn er jú seldur á erlenda markaði og ef krónan er sterk þá fást færri krónur fyrir hverja Evru sem fiskur er seldur fyrir. Nú, eða jen eða dollara.

Í yfirstandandi kjaraviðræðum hefur því ekki einungis verið haldið á lofti að sjómenn séu með ofurlaun heldur einnig því að þeirra barátta fyrir kjaraleiðréttingu helgist af því að þeir vilji ekki una því að laun þeirra hafi lækkað á síðasta ári og verði hreinlega að gera sér grein fyrir því að tekjur úr sjávarútvegi eru ekki fasti heldur grein sem háð er ýmiss konar utanaðkomandi breytum.

Heiðveig María Einarsdóttir sem er viðskiptalögfræðingur, sjómaður, sjómannsdóttir og sjómannskona, segir slíkar fullyrðingar fjarri öllum sanni.

Heiðveig María Einarsdóttir gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir andvaraleysi í garð …
Heiðveig María Einarsdóttir gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir andvaraleysi í garð sjómanna. Myndin er aðsend.

Leiðrétting en ekki kröfur

„Það mátti alveg sjá þetta verkfall fyrir. Sjómenn hafa verið samningslausir í sex ár og nú nota þeir sitt eina vopn til að ná fram leiðréttingu á kjörum sínum. Þetta eru nefnilega ekki kröfur um meira, heldur ósköp einfaldlega kröfur um að kjör þeirra verði leiðrétt í átt að sanngirnissjónarmiðum,“ segir Heiðveig.

Hún segir ábyrgðina liggja að mestu leyti hjá ríkinu. Ríkið hafi látið málefni sjómanna að þessu leyti afskiptalaust og ekki sinnt því eftirlits- og aðhaldshlutverki sem því ber á grundvelli vinnuréttarsjónarmiða, sérstaklega í ljósi þess að kjör sjómanna eru bundin með axlaböndum og belti í lög sett af Alþingi.

Þau atriði sem ekki hefur verið samið um milli sjómanna og útgerða nú, og valda því hreinlega að verkfallið stendur enn, eru olíufrádrátturinn og bætur vegna afnáms sjómannaafsláttarins. Í lögum frá árinu 1986 kemur fram að tiltekið hlutfall aflaverðmætis hvers túrs skuli renna óskipt til útgerðar áður en því er skipt milli sjómanna og útgerðar, og má rekja upphaf þess til mjög hás olíuverðs og slæmrar stöðu útgerðar á þeim tíma.

Margt bjagað við olíufrádragið

„Þessi krafa sjómanna er ekkert ný af nálinni. Sjómenn hafa verið að berjast fyrir því að fá leiðréttingu á þessum frádrætti í mörg ár. Það sést af menn skoða kjarasamningana þeirra síðastliðin ár. Þetta eru 30%, nærri einn þriðji af aflaverðmæti hvers túrs, sem fer óskipt til útgerðarinnar. Krafa sjómanna núna er samt bara sú að þessi prósenta verði lækkuð um einn tíunda. Hvernig sem á það er litið verður það að teljast mjög svo hóflegt,“ segir Heiðveig.

„Við verðum að átta okkur á því að þessi lög eru barn síns tíma og orðin algerlega úrelt. Raunkostnaður útgerðarinnar fyrir olíuna er, samkvæmt opinberum tölum Hagstofu Íslands, ekki nema 11,7% að meðaltali undanfarin ár. Samt fær útgerðin 30% til sín óskipt á þeim grundvelli einum að þrjátíu ára skiptalög kveði á um það.“

„Að mínum dómi ætti einfaldlega að gera olíukostnað útgerðar upp á grundvelli framlagðra reikninga um raunverulegan kostnað olíunnar. Þess utan er varla að sjá að lögin samræmist 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. breytingarlög frá 1995, þar sem kveðið er á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi. Samningsréttur og samningsfrelsi stéttarfélaga njóta verndar samkvæmt ákvæðinu. Að mínu viti má liggja ljóst fyrir að ákvæði laga nr. 24/1986 um olíuviðmiðið skerða þessi stjórnarskrárvörðu réttindi því þarna er búið að taka rétt manna til að semja um þetta af þeim. Útgerðirnar skýla sér svo bak við þetta úrelta lagaákvæði og kvarta yfir því hvað þetta muni kosta þær mikið. Þetta eru ekki þeirra peningar. Þetta eru fjármunir sem samkvæmt öllum sanngirnissjónarmiðum ættu að fara til skipta milli sjómanna og útgerða, peningar sem verða til úr sameiginlegri auðlind þessarar þjóðar,“ bætir Heiðveig við.

Samantekt Heiðveigar sem hún segir sýna samanburð á framsetningu SFS …
Samantekt Heiðveigar sem hún segir sýna samanburð á framsetningu SFS um olíukostnað annars vegar og tölulegar upplýsingar frá Hagstofu Íslands hins vegar. Mynd: Heiðveig Einarsdóttir.

Hún segir ekkert vit í því að 30% aflaverðmætis fari óskipt til útgerðar eftir hverja veiðiferð því aflaverðmæti geti verið 100 milljónir króna einn túrinn og 300 milljónir þann næsta.

„Útgerðin fær því þeim mun meira ef aflaverðmætið hækkar, en auðvitað helst olíukostnaðurinn óbreyttur, svo útgerðirnar hagnast þeim mun meira eftir því sem betur gengur þar sem þær fá tæpan þriðjung til sín óskipt. Þetta er hreinlega út úr kortinu,“ segir hún.

Sjá frétt: Segir sjómenn greiða útgerðarmönnum styrk

Dagpeningar eiga að vera sjálfsagðir

Um kröfu sjómanna fyrir bætur vegna afnáms sjómannaafsláttarins segir Heiðveig hana skiljanlega. Sjómenn á öllum Norðurlöndunum fái sjómannaafslátt og allar aðrar stéttir sem vinna fjarri heimili njóti þessara sjálfsögðu réttinda.

„Þarna á ríkið að sjá sóma sinn í því að leiðrétta þá kjaraskerðingu sem fólst í afnámi sjómannaafsláttarins. Stjórnvöld þurfa einfaldlega að vinna heimavinnuna sína enda kemur það skýrt fram í frumvarpinu með afnáminu að sjómenn eigi heldur að semja við atvinnurekendur sína um greiðslur dagpeninga í stað þess að vinna með eitthvert úrelt afsláttarkerfi. Þar til einhver getur sýnt mér fram á réttlæti þess að flugmenn og flugliðar fái dagpeninga en sjómenn ekki, þá tel ég galið að þeir fái ekki einhvers konar dagpeninga. Sérstaklega þegar sömu stjórnvöld bera það alltaf fyrir sig að efnahagslegur stöðugleiki þjóðarinnar allrar eigi svona mikið undir því að sjómenn vinni sína vinnu þegar þau setja lög á hverja einustu tilraun sjómanna til að ná fram leiðréttingu á sínum kjörum. Að halda því fram að dagpeningar sjómanna séu einhvers konar samningsatriði við ríkið er galið. Launþegi og atvinnurekendur eiga að semja um það sín á milli án aðkomu ríkis þar sem reglurnar liggja fyrir og hafa sjómenn að mínu mati rétt á þeim rétt eins og annað launafólk,“ segir hún.

Auðvitað er vantraust

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og samningamaður sjómanna, hefur bent á að mikið vantraust ríki milli sjómanna og útgerðarmanna.

Sjá frétt: Ofsagróði og andlegt ofbeldi

Heiðveig tekur undir þetta og segir það fullkomlega skiljanlegt.

„Það liggur fyrir að það verð sem sjómenn fá fyrir aflann er oft langt undir því sem gerist í löndunum við hliðina á okkur. Af hverju er það? Þetta er sami afli, jafnvel veiddur hvort sínu megin við 200 mílurnar, sami fiskur sem landað er á sama tíma og íslenskir sjómenn fá brot af því sem aflinn er seldur á erlendis. Svo leggja menn fram bókun um að skipuð verði nefnd til að eyða þessari óvissu og útskýra af hverju þetta stafar, og það springur allt í loft upp hjá útgerðarmönnum. Af hverju má ekki yfirfara gögn málsins ef menn hafa ekkert að fela? Ef útgerðarmenn treysta sér ekki í þetta er ekki skrýtið að sjómenn treysti þeim illa,“ segir hún.

„Þess utan hefur borið á því að útgerðarmenn hafi aflað sér upplýsinga um það sem sjómenn ræða sín á milli inni á lokuðum samskiptasíðum á samfélagsmiðlum eftir krókaleiðum og notað það gegn sjómönnum í kjaraviðræðum. Mega sjómenn ekki bera saman bækur sínar? Hver getur láð þeim að bera ekki fullt traust til manna sem njósna um þeirra samtöl og neita að láta hlutlausan þriðja aðila yfirfara sölunótur til að sannreyna að það verð sem lífsviðurværi sjómanna byggist á sé rétt? Ef þú hefur ekkert að fela ætti það ekki að vera nokkurt einasta mál,“ segir Heiðveig.

Launahlutfall sjómanna af aflaverðmæti afbakað

„Samkvæmt fréttabréfi sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sendu á sína félagsmenn er því haldið fram að launahlutfall útgerða sé 30-50% og að í ákveðnum útgerðarflokkum sé launahlutfallið nær 50%,“ segir Heiðveig.

Sjá frétt: 15 milljónir fyrir 80 daga

„Framsetning þessara prósentutalna er jafnábyrgðarlaus og að nota tímaritið Frjálsa verslun sem heimild fyrir meðallaunum sjómanna. Í opinberum gögnum Hagstofunnar eru nægar upplýsingar til þess að kortleggja þennan kostnað. Úrtak Hagstofunnar í Hagveiðum og vinnslu tekur til 86% af heildinni og ætti því samanburður með notkun þeirra gagna að gefa raunverulega mynd af þessum stærðum. Til upplýsingar tilheyra þessi gögn einungis útgerðarhluta fyrirtækjanna og miðast tölur við aflaverðmæti upp úr skipi. Þá á eftir að vinna aflann í verðmætari afurðir í þeim flokkum þar sem það er gert. Því eiga fyrirtækin sem eiga bæði útgerð og fiskvinnslu enn meiri verðmætaaukningu inni og fá því að lokum mun meira fyrir aflann þegar upp er staðið,“ heldur hún áfram og vísar til grafsins að neðan mái sínu til stuðnings.

Mynd: Heiðveig Einarsdóttir

„Þarna sést svart á hvítu hvers kyns afbökun er um að ræða. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eiga að vita betur en að setja fram svona rakalaust rugl.“

Heiðveig segir einu leiðina til að komast að þeirri niðurstöðu að launahlutfall sjómanna sé helmingur aflaverðmætis vera þá að reikna slíkt af því sem eftir stendur þegar búið er að taka 30% olíukostnað óskipt til útgerðarinnar.

„Ef það er virkilega svo að menn reikna dæmið þannig, þá er það verulega ámælisvert. Mér er fyrirmunað að sjá hvernig SFS getur sett fram þessar tölur þegar öll opinber gögn sýna fram á hið gagnstæða,“ bætir hún við.

„Þetta er í besta falli misskilningur og í versta falli hreinar rangfærslur.“

 Reynt að skapa þrýsting

Hún segir erfitt að kyngja því að útgerðir beiti sér fyrir því á þann hátt sem raun beri vitni að skapa samfélagslegan þrýsting á sjómenn svo þeir haldi aftur til hafs og hætti þessu kvabbi.

„Samninganefndir sjómanna komu sér saman um nokkrar kröfur til að ná fram að einhverju leyti í samningum sínum við útgerðirnar og þær eru virkilega hófstilltar og sanngjarnar. Til að liðka fyrir samningum samþykktu þeir meira að segja nýsmíðaálagið í nokkur ár í viðbót, en það eitt og sér sýnir mikla fórnfýsi af þeirra hálfu. Að hugsa sér að sjómenn eigi að greiða fyrir ný skip sem þeir eignast svo ekki er jafngalið og að ætla sér að strætóbílstjórar greiði fyrir nýja strætóa, með þeim rökstuðningi að það fari betur um þá í þeim og því sé sanngjarnt að þeir taki þátt í slíkri fjárfestingu. Það er þess vegna dapurlegt að sjá þegar SFS flíkar staðreyndavillum varðandi meðallaun sjómanna og launahlutfall þeirra, og útgerðir nota þann styrk sem þær hafa til að reyna að sýna samfélaginu fram á það að sjómenn séu vanþakklát ofurlaunastétt sem hafi ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Heiðveig.

Sjómenn eiga skilinn stuðning og klapp á bakið

„Sjómenn eru ekki bara bakbeinið í íslenskum sjávarútvegi, sem hefur skapað þá velsæld í samfélaginu sem við öll þekkjum og tökum sem sjálfsagðri, heldur vinnandi stétt sem  í gegnum tíðina hefur þurft að sæta stigvaxandi kjaraskerðingum og rakalausum frádrætti af launum sínum á grundvelli löngu brostinna lagalegra forsendna – á meðan útgerðir landsins upplifa mesta fjárhagslega blómaskeið í sögu greinarinnar. Auk þess er það ekki flókið reikningsdæmi að skatttekjur í formi tekjuskatts og tryggingagjalds  af launum sjómanna skila mun meira til samfélagsins en fjármagnstekjur af arði,“ segir Heiðveig.

„Manni finnst að það ætti að vera á hinn veginn, að sjómönnum væri þakkað sitt framlag því það sést berlega nú þegar verkfallið er orðið svona langt að það geta ekki margir stigið inn í störf þeirra. Hvað þá eru tilbúnir til að leggja það á sjálfa sig og fjölskyldur sínar að vera alltaf fjarverandi til að standa undir hinum svokallaða efnahagslega stöðugleika. Við skulum heldur ekki gleyma því að nánast helmingur af tekjum sjómanna skilar sér í ríkiskassann í formi skatta og er okkur öllum til hagsbóta. Þetta er ekki einkamál sjómanna, þetta er hagsmunamál fyrir alla þjóðina. Hvað ætli við séum búin að kasta mörgum Landspítölum eða þyrlum í vasa útgerðarmanna með þessu tómlæti stjórnvalda?“ segir Heiðveig María Einarsdóttir.

Sjá einnig áður ritaða pistla Heiðveigar um kjaramál sjómanna: Rán um hábjartan dag og Skrumskæling sjómanna eða skrumskæling útgerðanna?

mbl.is