Þrátt fyrir að allt sitji fast í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna virðist ekki öll nótt úti í viðræðum vélstjóra við viðsemjendur þeirra. Samninganefndir VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sátu á tveggja og hálfs tíma óformlegum fundi í fyrradag og segir Guðmundur R. Ragnarsson, formaður VM, að það hafi verið „fínn fundur og vonandi varð hann til þess að hreyft var við einhverju. Vonandi verður framhald á því“.
Guðmundur vill þó að öðru leyti lítið tjá sig um árangur þessara þreifinga. Ekkert hefur enn komið frá stjórnvöldum sem gæti greitt fyrir lausn deilunnar, s.s. varðandi skattfríðindi dagpeninga. ,,Við viljum komast á sama stað og aðrir sem hafa þessa dagpeninga. Ef stjórnvöld ætla sér að breyta dagpeningafyrirkomulaginu erum við inni í þeim pakka en fram að því viljum við standa jafnfætis öðrum,“ segir Guðmundur.
Sjómannaverkfallið sem hefur staðið yfir frá 14. desember hefur haft mikil áhrif á fiskverkafólk. Um 1.600 einstaklingar sem hafa sótt um atvinnuleysisbætur hafa tilgreint verkfallið sem ástæðu skv. nýju yfirliti Starfsgreinasambandsins (SGS). Af þeim fá tæplega 1.300 einstaklingar greiddar bætur.
„Alls eru um eitt þúsund starfsmenn á kauptryggingu en atvinnuleysistryggingasjóður greiðir hluta hennar beint til fyrirtækja samkvæmt ákveðnum reiknireglum. Alls eru nú um 2.300 fiskvinnslustarfsmenn ýmist á kauptryggingu eða á atvinnuleysisbótum vegna verkfalls sjómanna. Fiskvinnslufólk á Íslandi er á milli 3-4.000 manns,“ segir í samantekt SGS.
Nú hafa samtals verið greiddar 312 milljónir kr. úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna verkfalls sjómanna. Greidd var 31 milljón kr. í desember og 281 milljón í janúar í atvinnuleysisbætur og vegna kauptryggingar skv. yfirliti SGS.
Verkfallið kemur misjafnt niður á fólki eftir landshlutum. Bent er á að um helmingur félaga í Drífandi í Vestmannaeyjum er á atvinnuleysisbótum og svipaða sögu er að segja um önnur samfélög sem styðjast að stærstum hluta við útgerð og fiskvinnslu.