„Norðurslóðir fyrst“

Ragnar Axelsson tekur við Íslensku bókmenntaverðlaununum á Bessastöðum.
Ragnar Axelsson tekur við Íslensku bókmenntaverðlaununum á Bessastöðum. mbl.is/Golli

„Fólkið sem býr á norður­slóðum á næst­um eng­an þátt í þeim breyt­ing­um sem eiga sér stað, held­ur stærri þjóðir sunn­ar á hnett­in­um,“ sagði Ragn­ar Ax­els­son ljós­mynd­ari þegar hann tók á móti Íslensku bók­mennta­verðlaun­un­um í flokki fræðirita og bóka al­menns efn­is fyr­ir ljós­mynda­bók­ina And­lit norðurs­ins.

Ragn­ar, sem marg­ir þekkja sem RAX, sagði þær miklu breyt­ing­ar sem nú ættu sér stað á norður­hveli jarðar eitt stærsta viðfangs­efni sem mann­kynið stæði frammi fyr­ir en breyt­ing­ar á norður­slóðum ættu er­indi við alla jarðarbúa þar sem þær hefðu keðju­verk­andi áhrif út um all­an heim.

„Norður­slóðir eru eins og ís­skáp­ur jarðar­inn­ar; hitastill­ir sem hjálp­ar til við að gera hita­stigið á jörðinni bæri­legt en því miður virðist sum­um vera sama; segja að svipaðar hita­breyt­ing­ar hafi gerst áður og við ætt­um bara að fagna því að geta verið á stutt­bux­um á Íslandi. En þetta er ekki al­veg svona ein­falt. Ef Golf­straum­ur­inn hæg­ir á sér þá þarf klár­lega að fara í síðbux­urn­ar aft­ur, því þá mun kólna veru­lega aft­ur hérna hjá okk­ur.

Ég held að all­ir sem eiga börn og barna­börn vilji geta horft í aug­un á þeim þegar spurn­ing­in kem­ur: Afi og amma, af hverju gerðuð þið ekki neitt?“

Ragn­ar sagði sitt fram­lag að skrá­setja lífið á norður­slóðum í mynd­um. Til­einkaði hann And­lit norðurs­ins fólk­inu á norður­slóðum; bók­in væri óður til þeirra.

Hann sagði að færi sem horf­ir myndu ís­lensk­ir jökl­ar hverfa á næstu 150 til 200 árum.

„Góður vin­ur minn sagði við mig um dag­inn þegar við vor­um að ræða þessi mál: Hvernig væri ef helstu þjóðarleiðtog­ar heims tækju upp kjör­orðið The Arctic First eða Norður­slóðir fyrst og myndu um leið þjóna hags­mun­um alls mann­kyns og koma sér í hóp merk­ustu leiðtoga heims? Það er nú ekki svo slæmt kjör­orð.“

Hægt er að horfa á þakk­arræðu RAX á vef Rík­is­út­varps­ins.

mbl.is