„Fólkið sem býr á norðurslóðum á næstum engan þátt í þeim breytingum sem eiga sér stað, heldur stærri þjóðir sunnar á hnettinum,“ sagði Ragnar Axelsson ljósmyndari þegar hann tók á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum í flokki fræðirita og bóka almenns efnis fyrir ljósmyndabókina Andlit norðursins.
Ragnar, sem margir þekkja sem RAX, sagði þær miklu breytingar sem nú ættu sér stað á norðurhveli jarðar eitt stærsta viðfangsefni sem mannkynið stæði frammi fyrir en breytingar á norðurslóðum ættu erindi við alla jarðarbúa þar sem þær hefðu keðjuverkandi áhrif út um allan heim.
„Norðurslóðir eru eins og ísskápur jarðarinnar; hitastillir sem hjálpar til við að gera hitastigið á jörðinni bærilegt en því miður virðist sumum vera sama; segja að svipaðar hitabreytingar hafi gerst áður og við ættum bara að fagna því að geta verið á stuttbuxum á Íslandi. En þetta er ekki alveg svona einfalt. Ef Golfstraumurinn hægir á sér þá þarf klárlega að fara í síðbuxurnar aftur, því þá mun kólna verulega aftur hérna hjá okkur.
Ég held að allir sem eiga börn og barnabörn vilji geta horft í augun á þeim þegar spurningin kemur: Afi og amma, af hverju gerðuð þið ekki neitt?“
Ragnar sagði sitt framlag að skrásetja lífið á norðurslóðum í myndum. Tileinkaði hann Andlit norðursins fólkinu á norðurslóðum; bókin væri óður til þeirra.
Hann sagði að færi sem horfir myndu íslenskir jöklar hverfa á næstu 150 til 200 árum.
„Góður vinur minn sagði við mig um daginn þegar við vorum að ræða þessi mál: Hvernig væri ef helstu þjóðarleiðtogar heims tækju upp kjörorðið The Arctic First eða Norðurslóðir fyrst og myndu um leið þjóna hagsmunum alls mannkyns og koma sér í hóp merkustu leiðtoga heims? Það er nú ekki svo slæmt kjörorð.“
Hægt er að horfa á þakkarræðu RAX á vef Ríkisútvarpsins.