Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi kom fram ríkur stuðningur við baráttu sjómanna fyrir bættum kjörum.
„Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar, sem haldinn var síðustu helgi, var óvenju fjölmennur,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í samtali við mbl.is.
„Þar var lögð fram bókun sem síðan var samþykkt af framkvæmdarstjórn. Þar kom fram mjög ríkur stuðningur við sjómenn í þessari deilu, sem og áhyggjur af landvinnslufólki sem sagt hefur verið upp og mun þurfa langan tíma til að vinna upp þann missi sem það hefur orðið fyrir,“ sagði formaðurinn.
„Við teljum að útgerðin, sem hefur hagnast um mörg hundruð milljarða síðustu árin, verði að sýna ábyrgð í þessu máli.“
Í yfirlýsingu sem mbl.is barst frá Samfylkingunni í dag segir:
"Samfylkingin lýsir yfir áhyggjum af stöðu launafólks í landvinnslu vegna aðgerða aðila í Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem margir hverjir hafa sagt starfsmönnum upp þrátt fyrir margra milljarða króna hagnað fyrirtækjanna á liðnum árum. Útgerðin verður að deila arði af vinnslu þjóðareignarinnar með starfsfólki sínu og þjóðinni allri.
Samfylkingin hafnar lagasetningu á verkfall sjómanna."