„Verða að hætta þessari störukeppni“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Vara­samt er að stjórn­völd grípi inn í kjara­deilu sjó­manna þar sem það gæti skapað slæmt for­dæmi vegna kjaraviðræðna sem fram und­an eru. Þetta sagði Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, þegar hún kom af rík­is­stjórn­ar­fundi í ráðherra­bú­staðnum við Tjarn­ar­götu í Reykja­vík í dag. Ítrekaði hún að ekk­ert slíkt stæði til.

„Það er hluti af þess­ari kannski heild­ar­sýn sem við erum að reyna að draga fram í stjórn­arsátt­mál­an­um. Að breyta kjara­samn­ings­líkan­inu, reyna að ein­falda skatt­kerfið og gera það gegn­særra og vera með sem fæst­ar und­anþágur. En staðan í þessu máli er mjög al­var­leg og ég hef mest­ar áhyggj­ur af hinum dreifðu byggðum lands­ins,“ sagði Þor­gerður.

Ráðherr­ann fær vænt­an­lega síðar í dag í hend­urn­ar skýrslu um þjóðhags­legt tap vegna verk­falls sjó­manna. „Þjóðhags­legt tap bara á hverj­um degi er gríðarlegt,“ seg­ir Þor­gerður. Skýrsl­an muni þó ekki fara ofan í kostnað hvers sveit­ar­fé­lags eða áhrif á minni fyr­ir­tækja. Til þess hefði þurft lengri tíma. Fyrst og fremst sé um að ræða stóra tölu sem vinn­ist til baka.

„En hún dreg­ur jú fram hve málið er al­var­legt og þess­ir deiluaðilar verða ein­fald­lega að hætta þess­ari störu­keppni,“ sagði Þor­gerður. Spurð hvort hún óttaðist að verk­fallið leiddi til samþjöpp­un­ar í sjáv­ar­út­vegi sagðist Þor­gerður gera það að vissu leyti. Talað hefði verið um að af­leiðing­in gæti verið sú að stóru út­gerðirn­ar tækju yfir þær sem minni væru.

Hins veg­ar væru stærstu út­gerðirn­ar al­veg við 12% há­mark afla­hlut­deild­ar. Það væri því ekki ein­boðið að sú yrði raun­in. „En það er ljóst að tjónið er að verða mikið. Bæði úti á landi og, já, á meðal minni út­gerða. Þetta mun kalla á aukna hagræðingu.“

mbl.is