„Bæði sjómenn og þeir sem starfa þessu næst tapa náttúrlega peningum, ég held að það sé ljóst,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður samninganefndar sjómanna í samtali við mbl.is. Sjómenn munu funda um og eftir helgi í sínu baklandi um stöðu og framgang mála í yfirstandandi verkfalli sjómanna. Valmundur segir fátt hafa komið á óvart í skýrslunni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti í dag um þjóðhagslegan kostnað vegna deilunnar.
„Ég held að þetta sé nú ágætt innlegg í þetta, auðvitað er mjög fínt ef við getum kortlagt það hvað þetta þýðir,“ segir Valmundur og tekur þannig í svipaðan streng og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem situr hinu megin borðsins í kjaradeilunni.
„Það er ekkert mikið sem stingur í augun svona við fyrsta lestur sýnist mér en þetta er svona nokkurn veginn það sem að menn gátu gert ráð fyrir líklega,“ segir Valmundur um skýrsluna. Það hafi verið vitað að það ætti eftir að veiða upp kvótann og að missir yrði af því sem mögulega tekst ekki að vinna upp.
Loðnuvertíðin fer senn að hefjast og stendur hún að jafnaði yfir aðeins fram í marsmánuð og óvíst er ennþá hvað verður í þeim efnum. „Það eru ekki nema 11 þúsund tonn sem Íslendingar mega veiða, það sem búið er að gefa út af veiðiheimildum til loðnu. Þannig að það er ekki hundrað í hættunni núna en það getur náttúrlega bæst við ef að þeir ná að finna eitthvað meira, þá kemur náttúrlega meiri pressa á báða aðila að semja,“ segir Valmundur.
Ítrekað hefur komið fram að yfirvöld hyggist ekki íhlutast í deilunni og ljóst af hálfu sjómanna að ekki sé reiknað með því. „Við höfum bara sagt að við erum með kröfu á útgerðina, á bætur fyrir sjómannaafsláttinn og það er það sem stendur upp á þá. Við getum ekki gert kröfu á ríkið þó að við teljum það réttlætanlegt. Ríkið er ekki að semja við okkur um kjarasamninga,“ segir Valmundur.
Sem fyrr segir munu sjómenn hittast og funda bæði um og eftir helgina og bera saman bækur sínar. „Auðvitað erum við alltaf að reyna að finna leiðir og reyna að klára þetta - en við finnum bara ekki lykilinn ennþá.“