Fuglinn soltinn í sjómannaverkfallinu

Sjómannaverkfallið virðist líka hafa áhrif á fuglalífið á miðunum.
Sjómannaverkfallið virðist líka hafa áhrif á fuglalífið á miðunum. mbl.is/Jim Smart

Áhrifa sjómannaverkfallsins gætir víða en Sigurður Hjartarson, sjómaður í Bolungarvík, hefur vakið athygli á áhrifum verkfallsins á lífríkið úti á miðunum. „Ég er á handfærum og fór á sjó í fyrradag, gott veður og ég tók bara eftir því hvað fuglinn er orðinn aðgangsharður, hann er greinilega soltinn,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

Segir hann þetta stafa af því að fuglinn hafi mikið lífsviðurværi af togurunum og af slóginu sem fer í sjóinn. „Þeir slægja bara eins og alltaf hefur verið gert í gegnum árin og slógið fer náttúrulega í sjóinn og fuglinn lifir á þessu,“ segir Sigurður. „Hverjum togara fylgja náttúrulega þúsundir fugla þegar er verið að gera að aflanum og nú vantar þetta inn í lífskeðjuna hjá þeim.“

Sigurður er mikill áhugamaður um náttúruna og fuglalífið og segir að ekki fari á milli mála að fuglinn hegði sér öðruvísi en venjulega. Tíðin sé þó sem betur fer góð og ljóst að neyð fuglanna væri meiri ef hart væri í ári. „Þessir fuglar náttúrulega eru alltaf við hliðina á bátunum á sjónum og manni finnst þetta svona vinalegt að hafa þá, en maður sér bara hvernig þeim líður núna,“ segir Sigurður.

Fékk súlu á krókinn

Sigurður varð var við það þegar hann fór á sjó í fyrradag að mikill fjöldi fugla í horfði vonaraugum á bátinn í von um eitthvað myndi falla til í gogginn. „Ég prófaði að slægja nokkra fiska og kasta innvolsinu í sjóinn og þá náttúrulega var barátta upp á líf og dauða að ná þessu hjá fuglunum,“ útskýrir Sigurður.  

Þá reyndu nokkrar súlur, sem jafnan eru sjaldséðar á Vestfjörðum, að ná fiskinum sem Sigurður var að draga upp og köfuðu á móti handfærunum til að reyna að ná því sem var á króknum. „Í eitt skiptið þá var ég allt í einu kominn með súlu í hendurnar vegna þess að hún hékk svo ákveðið á fiskinum og húkkaðist krókur í vænginn á henni,“ segir Sigurður sem þó tókst að losa fuglinn sem slapp með skrekkinn.

Þá hafa menn tekið eftir því á bryggjunni í Bolungarvík þegar verið er að landa afla af litlu bátunum að fuglinn er aðgangsharður í fiskikerin sem eru á bryggjunni og þarf að vakta þau sérstaklega vel.

„Hver einasti maður sem ég heyri í hérna vill að það fari að leysast þetta verkfall, það er leiðinlegt að horfa á fallegt skip í höfninni,“ segir Sigurður. Hann og aðrir sem gera út minni báta geta þó róið þrátt fyrir verkfallið en hann segir sorglegt að horfa upp á togarann Sirrý í höfninni. „Það er mjög leiðinlegt að horfa á þetta skip verkefnalaust og það er fullt af mönnum hér sem eru háðir útgerðinni á skipinu.“

mbl.is