Samninganefnd Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fundar nú vegna tilboðs sem nefndin fékk í hendurnar í dag frá samninganefnd sjómanna. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir að reynt verði að vinna hratt við skoðun tilboðsins.
„Við erum bara í þessum töluðu orðum að kynna okkur það,“ segir Heiðrún Lind í samtali við mbl.is. Spurð hvernig henni hugnast tilboðið segist Heiðrún ekki munu tjá sig um það núna, frekar en nokkur efnisleg atriði tilboðsins.
„Ég ætla ekki að tjá mig um það að svo stöddu og mun ekki gera það.“
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, að sjómenn hafi slegið af kröfum sínum og hefur hann sagt við fjölmiðla í dag að um sé að ræða „lokatilboð“ til útgerðarinnar. Spurð hvort henni sýnist svo vera vill Heiðrún ekki tjá sig um það heldur.
„Við reynum bara að vinna eins fljótt og við getum, vitandi hver ábyrgð okkar er,“ segir Heiðrún að lokum.