Segir SFS mæta sjómönnum á miðri leið

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. mbl.is/Árni Sæberg

Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, vill að sjó­menn sofi á gagn­til­boðinu sem SFS gerði þeim í dag en slái það ekki út af borðinu. Sjó­menn höfnuðu til­boði SFS mjög fljót­lega eft­ir að þeim barst það og sagði Val­mund­ur Val­munds­son, formaður Sjó­manna­sam­bands­ins, í sam­tali við mbl.is fyrr í dag að til­boðið sem sjó­menn gerðu SFS í gær væri end­an­legt og óumsemj­an­legt.

Í sjón­varps­frétt­um RÚV sagði Heiðrún Lind að með gagn­til­boði SFS væru deiluaðilar að mæt­ast á miðri leið m.v. það sem rætt hef­ur verið á samn­inga­fund­um und­an­farið. Hún sagðist trúa því að hægt væri að ná lend­ingu í öll­um þeim atriðum þar sem enn ber á milli deiluaðila og sagði SFS styðja sjó­menn í þeirri bar­áttu að fá breyt­ing­ar á skatt­kerf­inu þannig að fæðis­pen­ing­ar sjó­manna verði skatt­frjáls­ir.

Óvíst var hvort fundað yrði í deil­unni í kvöld hjá rík­is­sátta­semj­ara þegar mbl.is ræddi við Bryn­dísi Hlöðvers­dótt­ur rík­is­sátta­semj­ara um kvöld­mat­ar­leytið. Hún kvaðst myndu fylgj­ast vel með gangi mála í kvöld og boða til fund­ar teldi hún fund geta skilað ár­angri.

mbl.is