Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, vill að sjómenn sofi á gagntilboðinu sem SFS gerði þeim í dag en slái það ekki út af borðinu. Sjómenn höfnuðu tilboði SFS mjög fljótlega eftir að þeim barst það og sagði Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, í samtali við mbl.is fyrr í dag að tilboðið sem sjómenn gerðu SFS í gær væri endanlegt og óumsemjanlegt.
Í sjónvarpsfréttum RÚV sagði Heiðrún Lind að með gagntilboði SFS væru deiluaðilar að mætast á miðri leið m.v. það sem rætt hefur verið á samningafundum undanfarið. Hún sagðist trúa því að hægt væri að ná lendingu í öllum þeim atriðum þar sem enn ber á milli deiluaðila og sagði SFS styðja sjómenn í þeirri baráttu að fá breytingar á skattkerfinu þannig að fæðispeningar sjómanna verði skattfrjálsir.
Óvíst var hvort fundað yrði í deilunni í kvöld hjá ríkissáttasemjara þegar mbl.is ræddi við Bryndísi Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara um kvöldmatarleytið. Hún kvaðst myndu fylgjast vel með gangi mála í kvöld og boða til fundar teldi hún fund geta skilað árangri.