Karlmaður sem ákærður hafði verið fyrir frelsissviptingu, líkamsárás, hótanir, kynferðisbrot og stórfelldar ærumeiðingar gegn sambýliskonu sinni í febrúar á síðasta ári var í morgun dæmdur í fjögurra ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur. Áður hafði maðurinn hlotið tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir athæfið í héraði, en Hæstiréttur ógildi þá niðurstöðu í desember og sendi aftur í hérað. Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi frá febrúar til desember, eða í um 10 mánuði. Dregst varðhaldið frá dómi mannsins.
Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef héraðsdóms, en sagt er frá niðurstöðunni á vef Vísis. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari og saksóknari í málinu, staðfestir niðurstöðu dómsins við mbl.is.
Í ákæru málsins kom fram að maðurinn hafi svipt sambýliskonu sína frelsi í fjórar klukkustundir á heimili þeirra og ítrekað veist að henni, slegið hana hnefahöggum og rifið í hár hennar. Þá hafi hann skipað konunni að setjast á stól en svo sparkað honum undan henni svo hún féll á gólfið.
Meðan á þessu stóð er maðurinn sagður hafa hótað konunni ítrekað lífláti og meinað útgöngu af heimilinu.
Þá á maðurinn að hafa tekið myndir af kynfærum hennar og áreitt hana kynferðislega auk þess sem hann þvingaði hana til munnmaka og endaþarmsmaka. Hlaut konan af þessu mar á höfði og víðar auk þess sem jaxl brotnaði.
Þá kom fram við rannsókn málsins að maðurinn og faðir hans reyndu ítrekað að hafa áhrif á framburð konunnar með því að setja sig í samband við hana.
Í dómi Hæstaréttar segir að það hafi verið mat héraðsdóms, að virtum vitnisburði sambýliskonunnar hjá lögreglu og fyrir dómi, að maðurinn hefði verið í góðri trú þegar hann hafði við hana endaþarmsmök í framhaldi munnmakanna og var hann með vísan til þess sýknaður af þeim sakargiftum vegna skorts á ásetningi.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar litið væri til framangreinds ofbeldis sem maðurinn hefði beitt konuna á heimili þeirra og aðstæðna allra fælist þversögn í þeirri niðurstöðu héraðsdóms að sakfella fyrir fyrri hluta háttsemislýsingar nauðgunarbrotsins en sýkna af sakargiftum vegna hennar að öðru leyti.
Voru því taldar fram komnar nægar líkur fyrir því að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kynni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga um meðferð sakamála.
Því var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar og dómsálagningar að nýju.
Frétt mbl.is: Áfram í gæsluvarðhaldi eftir misþyrmingar
Frétt mbl.is: Grunaður um að alvarleg brot gegn sambýliskonu sinni
Frétt mbl.is: Misþyrmdi sambýliskonu sinni
Frétt mbl.is: Áfram gæsluvarðhald vegna misþyrmingar