Forsvarsmenn SFS í kjaradeilu sjómanna og útgerðarfyrirtækja, þar á meðal Jens Garðar Helgason og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, gengu nú fyrir skömmu til fundar í sjávarútvegsráðuneytinu.
Blaðamaður mbl.is var fyrir utan Karphúsið í Borgartúni að bíða fregna, þegar samninganefnd SFS gekk út úr húsinu. Þar voru forsvarsmenn sjómanna einnig.
Aðspurður sagði Jens Garðar Helgason, formaður SFS, þá að nefndarmenn ætluðu að fá sér eitthvað að borða, og nefndi um leið Bæjarins bestu.
Ljósmyndari mbl.is elti þá bifreið, sem nefndarmennirnir þrír notuðust við, að sjávarútvegsráðuneytinu við Skúlagötu 4. Þar gengu þremenningarnir inn.
Bifreið Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra stendur fyrir utan ráðuneytið.