Þýska lögreglan gerði í dag húsleit í íbúðum fjögurra trúarleiðtoga múslima. Eru þeir grunaðir um að hafa njósnað um stuðningsmenn klerksins Fethullah Gulen fyrir tyrknesk stjórnvöld. Gulen hefur um árabil verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, en tyrknesk stjórnvöld telja hann standa á bak við misheppnaða valdaránstilraun í landinu í júlí á síðasta ári.
Húsleitirnar voru gerðar í sambandsfylkjunum Nordrhein-Westfalen og Rheinland-Pfalz og eru taldar reyna enn frekar á stirð samskipti Þýskalands og Tyrklands að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.
Í yfirlýsingu frá skrifstofu ríkissaksóknara segir að trúarleiðtogarnir hafi fylgt skipunum frá Diyanet, tyrkneskum trúaryfirvöldum sem saka stuðningsmenn Gulen um tilræðið.
Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, sagði trúarleiðtogana fjóra tilheyra Ditib, sem er stærsta sambandi moska í Þýskalandi og sér um að flytja klerka og trúarleiðtoga til landsins frá Tyrklandi til að þjóna þeim þremur milljónum tyrkneskættaðra manna sem búa í Þýskalandi.
„Það er alveg ljóst að áhrif tyrkneska ríkisins á Ditib eru mikil. Sambandið þarf að rjúfa þau tengsl með sannfærandi hætti,“ sagði í yfirlýsingu Maas. Eru trúarleiðtogarnir fjórir grunaðir um að hafa safnað upplýsingum um stuðningsmenn Gulens og komið þeim til tyrknesku ræðismannsskrifstofunnar í Köln.
Saksóknaraembætti hóf í síðasta mánuði rannsókn á mögulegri njósnastarfsemi tyrkneska ríkisins í Þýskalandi eftir að kæra var lögð fram. Yfirvöld í Austurríki standa einnig fyrir sambærilegri rannsókn á því hvort net uppljóstrara fylgist með stuðningsmönnum Gulens þar í landi.
Stjórnvöld í Tyrklandi hafa sakað yfirvöld í Þýskalandi um að skýla uppreisnarmönnum úr kúrdíska verkamannaflokkinum PKK og öfga-vinstriflokkinum DHKP-C sem hafa staðið fyrir árásum í Tyrklandi. Þýskir ráðamenn hafa neitað slíkum ásökunum.