Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á meintu kynferðisbroti gegn tveimur konum sem átti sér stað á hóteli á Suðurlandi gengur vel.
Maðurinn var handtekinn á hótelinu milli klukkan 6 og 7 á mánudagsmorgun síðastliðinn, grunaður um að hafa brotið gegn konunum að sögn lögreglunnar. Hann var handtekinn fljótlega eftir að tilkynnt var um meint brot.
Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til kl. 16 á föstudag á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Sá úrskurður hefur verið kærður en niðurstaða liggur ekki fyrir.
Ákæra hefur ekki verið lögð fram. Að sögn lögreglu á Suðurlandi verður málið rannsakað hvort sem kæra verður lögð fram eða ekki.
Lögreglan vildi ekki veita frekari upplýsingar að svo stöddu.