Kostnaður ríkissjóðs vegna greiðslu útgerðarinnar á fæðispeningum sjómanna á fiskiskipum nemur um 400 milljónum króna á ári. Miðað er við að fjöldi lögskráðra daga sjómanna sé um 600 þúsund.
Þetta kemur fram í upplýsingum frá Sjómannasambands Íslands.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að gögn sem Sjómannasambandið lét ráðuneytinu í té á síðasta ári séu ekki rétt. Í fyrri tilkynningu ráðuneytisins, sem var byggð á þeim gögnum, kom fram að heildarkostnaður útgerðarinnar vegna greiðslu fæðispeninga sjómanna á fiskiskipum væri um 2,3 milljarðar króna á ári samkvæmt gildandi kjarasamningum.
Miðað var við að fjöldi lögskráningardaga sjómanna væri um 1,5 til 1,6 milljónir daga á ári.
Þar kom einnig fram að áætlað tekjutap ríkisins af þeirri fjárhæð, yrði hún undanþegin skatti, er um 730 milljónir króna á ári. Því til viðbótar myndu sveitarfélög tapa um 330 milljónum króna í útvarpstekjum.
Að sögn framkvæmdastjóra Sjómannasambands Íslands hefur fjöldi lögskráningadaga fækkað. Núna er miðað við tölur frá árinu 2015 og því er matið annað en kom fram í þeim upplýsingum sem ráðuneytið var með.