Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, segir að ekki komi til greina að fresta sjómannaverkfallinu á meðan greiningarvinna fer fram um fjárhagslegar afleiðingar þess ef gengið yrði að kröfum sjómanna um skattaafslátt af fæðisgjaldi.
Í tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur fram að greiningunni verði lokið í síðasta lagi í lok apríl.
„Við gerum það ekki. Við þurfum að fá lausn í þetta núna,“ segir Hólmgeir, spurður út í mögulega frestun verkfallsins.
Ekki mun takast að veiða þann loðnukvóta sem veittur hefur verið, ef verkfall sjómanna heldur áfram á meðan á greiningunni stendur. Hólmgeir segist ekki finna fyrir þrýstingi vegna þess. „Ég finn það ekkert hjá okkur.“
Spurður hvort það sér réttlætanlegt að ríkið grípi inn í vegna fæðisgjaldsins og geti þannig sett fordæmi fyrir kjaraviðræður annarra stétta, svarar Hólmgeir: „Okkur finnst það réttlæti að sjómenn fái dagpeninga. Það eru peningar sem fara allir í fæðiskostnað. Þeir borga fæðið sitt sjálfir og ef ríkið er búið að hirða af þessu skatt áður þá dugir það ekki fyrir fæðiskostnaði.“