Fulltrúar Samninganefndar sjómanna gengu út af fundi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra laust upp úr klukkan tíu í kvöld. Fundurinn fór fram í sjávarútvegsráðuneytinu við Skúlagötu. Vildu þeir ekki tjá sig við blaðamenn mbl.is sem voru á vettvangi um hvað fram fór á fundinum.
Fulltrúar deiluaðila funduðu einnig í ráðuneytinu í gærkvöld og kváðust þá ekki heldur vilja tjá sig við fjölmiðla vegna gildandi fjölmiðlabanns í kjaradeilunni.
Guðmundur Kristján Jónsson, aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, staðfesti í samtali við mbl.is að ráðherra hafi rætt málin með fulltrúum sjómanna í kvöld en segir ekkert nýtt hafa í raun komið fram á fundinum, heldur hafi fólk aðeins verið að ræða málin og þá tillögu sem ráðherra bar upp í gær um að stjórnvöld geri greiningu á fjárhagslegum afleiðingum þess ef gengið yrði að kröfum sjómanna um skattaafslátt af fæðisgjaldi.
Þorgerður Katrín hefur sjálf ekki gefið færi á viðtali í kvöld.
Samið hefur verið um öll mál í kjaradeilu sjómanna og útgerðarinnar nema um eitt atriði, það er varðar mögulegan skattaafslátt af fæðispeningum sjómanna.
Samninganefnd SFS hefur fundað og rætt málin í sínum húsakynnum í kvöld og bjóst Jens Garðar Helgason, formaður SFS, við því þegar hann ræddi við mbl.is fyrr í kvöld, að samninganefnd þeirra myndi heyra í samninganefnd sjómanna seinna í kvöld
Í samtali við mbl.is fyrr í kvöld sagði Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari að ekki hafi verið boðað til sáttafundar né heldur tekin ákvörðun um hvenær svo verður. „Ég bara met það jafnóðum en það er ekki búið að ákveða neitt og ekkert víst að það verði í kvöld eða mögulega á morgun, ég bara veit það ekki enn þá,“ sagði Bryndís. „Ég er í góðu og reglulegu sambandi við aðila og muni bara meta það klukkutíma fyrir klukkutíma hvort það sé tilefni til að funda.“