Nokkuð skiptar skoðanir virðast vera meðal stjórnarandstöðuflokkanna um hvort og þá hvernig yfirvöld ættu að bregðast við þeirri stöðu sem er uppi í kjaradeilu sjómanna við útgerðina. Fulltrúar flokkanna lýstu afstöðu sinni í samtali við mbl.is og virðist afstaða þeirra nokkuð ólík vegna verkfallsins. Allir eru þó sammála um mikilvægi þess að sjái fyrir endann á deilunni sem allra fyrst, helst án þess að sett verði lög á verkfallið.
Deiluaðilar funduðu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra í gær en þar lagði ráðherra fram tillögu um að fram fari heildstæð greining á því hvernig farið er almennt með fæðiskostnað og greiðslur vegna fæðis í skattalegu tilliti. Slík greining verði unnin í samvinnu við deiluaðila og eftir atvikum önnur samtök launafólks og vinnuveitenda.
„Við höfum ekki stutt lagasetningu á verkföll og teljum að það þurfi mjög veigamikil rök fyrir því að taka samningsréttinn af aðilum, sem er stjórnarskrárbundinn,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hins vegar segir Katrín að flokkurinn hafi, líkt og ýmsir aðrir, hvatt til þess að stjórnvöld reyni að liðka til fyrir lausn deilunnar og „verið opin fyrir því að skoða leiðir í því samhengi“.
Markmið greiningarinnar sem ráðherra lagði til í gær er að tryggja áfram einfalda og sanngjarna skattframkvæmd og að jafnræðis sé gætt milli launþega hvað varðar skattlalega meðferð greiðslna og hlunninda vegna fæðiskostnaðar að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag.
„Við erum með alls kyns svona sérráðstafanir í skattkerfinu sem eru ekki endilega æskilegar. Hins vegar vitum við alveg að við erum með ýmis svona dæmi og auðvitað verða stjórnvöld að skoða þetta með tilliti til hagsmuna,“ segir Katrín og bætir við að kerfið á Íslandi sé fullt af sérráðstöfunum. „Þó að ég hafi skilning á því að menn vilji horfa á almennar reglur þá er það svo að kerfið sem við búum við er fullt af slíkum sérráðstöfunum,“ segir Katrín að lokum.
„Ég held að það sé bara komið að ríkistjórninni að hún fari að stíga inn í og gera eitthvað sem leysir þessa deilu og við höfum ekkert langan tíma í það,“ Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins í samtali við mbl.is.
Spurð hvenær hún telji tímabært að yfirvöld grípi inn í segir Þórunn að að sínu mati þurfi það helst að gerast strax í dag. Telur hún þó ekki nauðsynlegt að binda enda á verkfallið með því að grípa til lagasetningar. „Ég held að það sé alveg hægt að leysa þetta með öðrum hætti, eftir samtölum mínum við menn núna þá sýnist mér að það ætti að vera hægt,“ segir Þórunn. Ein leiðin í stöðunni sé að skoða að veita skattaafslátt af fæðisgjaldi sjómanna. „Þetta er bara orðið mjög aðkallandi, þetta getur ekki dregist."
„Okkur er meinilla við það að það sé verið að taka verkfallsréttinn af fólki og það þarf náttúrlega að búa til stöðu þannig að báðir deilendur sitji við sanngjarnt borð því að það virðist vera sem svo sé ekki akkúrat núna,“ segir Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, í samtali við mbl.is.
Spurð hvort hún telji rétt að yfirvöld hafi afskipti af deilunni með öðrum hætti segir Ásta að það mætti ræða en djúpt samtal þurfi að eiga sér stað áður en farið er í aðgerðir. Þá telur hún brýnt að jafna stöðu samningsaðila en hún telur ljóst að útgerðin hafi sterkari samningsstöðu en sjómenn.
„Það hefur náttúrlega verið bara gegnumgangandi í gegnum söguna, deilur milli þessara tveggja aðila, þannig það þarf að finna einhverja langtímalausn á þessu,“ segir Ásta Guðrún. Kveðst hún ekki hafa sérstaka skoðun á því hvaða leið væri ákjósanleg. „Þá er bara mikilvægt að séu teknar alvöru, og bara djúpar umræður um þetta og með virðingu fyrir báðum aðilum að mínu mati,“ bætir hún við. En er tími til þess?
„Það bara verður stundum að gefa sér tíma til þess, ég meina það er kannski hægt að gera eitthvað til bráðabirgða en markmiðið þarf náttúrlega að vera að búa til eitthvað sem er stöðugt til frambúðar,“ segir Ásta Guðrún að lokum.
Að sögn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, er það afstaða flokksins að ríkið hafi helst engin afskipti af deilunni. „Við teljum það ekki rétt,“ segir Oddný. „Við leggjum bara áherslu á það að deiluaðilar nái samningum, mér finnst það skipta öllu máli og mér finnst að ríkið eigi ekki að koma þar inn í.“
Telur hún að ríkið ætti í mesta lagi að setja einhverjar almennar reglur eða bregðast við með einhvers konar almennum hætti án þess að grípa til einhverja séraðgerða. „En auðvitað er þetta verulegt áhyggjuefni hver staðan er, en það þarf að hvetja deiluaðila til að ná saman,“ segir Oddný. Þá segir Oddný að í fljótu bragði hugnist henni ekki sú tillaga sem sjávarútvegsráðherra bar á borð deiluaðila í gær um að stjórnvöld ráðist í heildstæða greiningu á því hvernig farið er almennt með fæðiskostnað og greiðslur vegna fæðis í skattalegu tilliti.