Þorgerður upplýsi um stöðuna

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, mæt­ir á sam­eig­in­leg­an fund efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar og at­vinnu­vega­nefnd­ar á nefnda­sviði Alþing­is í fyrra­málið. Óli Björn Kára­son, formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar, seg­ir að á fund­in­um verði farið yfir stöðuna sem er uppi vegna verk­falls sjó­manna, hvaða áhrif verk­fallið hef­ur haft á efna­hags­mál og stöðu rík­is­sjóðs.

„Þessi fund­ur er fyrst og fremst hugsaður til að gefa ráðherr­an­um tök á því að gera nefnd­ar­mönn­um grein fyr­ir því hvaða sjón­ar­mið eru uppi og hvaða leiðir séu hugs­an­leg­ar til að höggva á þenn­an hnút,“ seg­ir Óli Björn.

Á fundi Þor­gerðar Katrín­ar og deiluaðila í kjara­deilu sjó­manna kom fram að hún hygðist setja af stað vinnu í ráðuneyt­inu til þess að meta áhrif skatta­breyt­inga sem miðuðu að því að gera fæðis­pen­inga sjó­manna skatt­frjálsa. Upp­lýsti hún deiluaðila um að þeirri vinnu yrði lokið eigi síðar en í apríl.

mbl.is