Ekki endilega sami fiskur á ferð

Kvíar sem regnbogasilungur er ræktaður í í dag eru að …
Kvíar sem regnbogasilungur er ræktaður í í dag eru að verða úreltar. Fyrirtæki hallast nú frekar að laxeldi. mbl.is/Rax

Ekki er enn hægt að slá því föstu að regn­bogasil­ung­ur sem mögu­lega slapp út um gat á eldisk­ví í Dýraf­irði, sé sá hinn sami og fannst í ám víða um land síðasta sum­ar. „Það er ekk­ert víst að þessi mál teng­ist,“ seg­ir Soffía Magnús­dótt­ir, fagsviðsstjóri fisk­eld­is hjá Mat­væla­stofn­un. „Miðað við þau gögn sem við erum með núna höf­um við ekki enn dregið þá álykt­un.“

Í til­kynn­ingu sem fyr­ir­tækið Arctic Sea Farm í Dýraf­irði sendi frá sér í gær kom fram að gat hefði fund­ist á einni kvínni og að með upp­götv­un­inni kunni að hafa fund­ist meg­in­skýr­ing­in á „mögu­legri slysaslepp­ingu regn­bogasil­ungs“ sem fjallað var um síðastliðið haust.

Soffía seg­ir þó að stærð fisks­ins sem nú er verið að slátra úr kví­um fyr­ir­tæk­is­ins stemmi mögu­lega ekki við stærð fisks­ins sem fannst í ánum í sum­ar. Hins veg­ar eigi enn eft­ir að afla frek­ari gagna og rann­saka málið bet­ur.

Mat­væla­stofn­un hef­ur eft­ir­lit með búnaði og sjúk­dóm­um í fisk­eldi hér á landi. Eft­ir­litsmaður frá stofn­un­inni mun á morg­un fara á vett­vang og skoða aðstæður hjá Arctic Sea Farm. Í kjöl­far þeirr­ar heim­sókn­ar verða næstu skref Mat­væla­stofn­un­ar ákveðin.

Eft­ir­lit með búnaði í fisk­eldi var áður hjá Fiski­stofu en hef­ur frá því í byrj­un árs 2015 verið á ábyrgð MAST. Soffía seg­ir að eft­ir­litsmaður frá MAST heim­sæki sjókvía­eld­is­stöðvar að minnsta kosti einu sinni á ári og oft­ar ef þess þurfi. Í þeim eft­ir­lits­ferðum sé farið yfir ástand búnaðar, skrán­ing­ar í gæðahand­bók, þjálf­un starfs­manna, viðbragðsáætlan­ir og fleira.

MAST hef­ur hins veg­ar ekki það hlut­verk að skoða kví­arn­ar. „Við erum ekki með neðan­sjáv­ar­eft­ir­lit,“ seg­ir Soffía en bend­ir á að sam­kvæmt reglu­gerð eigi fyr­ir­tæk­in að skoða kví­arn­ar sín­ar á 90 daga fresti, annaðhvort með mynda­vél­um eða köf­un. „Sem þeir gera og [Arctic Sea Farm] var ný­búið að gera það, í síðasta mánuði skilst mér.“

Arctic Sea Farm er nú að meta um­fang mögu­legr­ar slysaslepp­ing­ar úr göt­óttu kvínni. Þegar slátrun úr henni lýk­ur verður þó fyrst hægt að staðfesta um­fangið.

Um 100 tilkynningar um regnbogasilung í íslenskum ám bárust í …
Um 100 til­kynn­ing­ar um regn­bogasil­ung í ís­lensk­um ám bár­ust í fyrra. mbl.is/​Ein­ar Falur Ing­ólfs­son

Rangt að eft­ir­litið sé ekk­ert

Í haust sagði Jón Helgi Björns­son, formaður Lands­sam­bands veiðifé­laga, að regn­bogasil­ung­ur hefði „veiðst í ann­arri hverri á lands­ins í sum­ar og haust.“ Taldi hann það vænt­an­lega eld­is­fisk sem sloppið hefði úr sjókví­um við Ísland. Hátt í hundrað til­kynn­ing­ar um regn­bogasil­ung í ís­lensk­um ám bár­ust NASF, Vernd­ar­sjóði virkra laxa­stofna, í fyrra.

Orri Vig­fús­son, formaður NASF, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að svo virt­ist sem MAST hefði „ekki hafa nokk­urt eft­ir­lit eft­ir þessu. Við höf­um gagn­rýnt það mjög mikið. Þetta sýn­ir vinnu­brögð þeirra“.

Soffía seg­ir þetta ein­fald­lega rangt. „Við för­um í all­ar stöðvarn­ar á hverju ári og sam­starf eft­ir­litsaðila og rekstr­araðila er mjög já­kvætt. Það er mjög reglu­legt eft­ir­lit.“

Kví­arn­ar að verða úr­elt­ar

Hún bend­ir á að regn­bogasil­ung­ur sé al­inn í búnaði (kví­um) sem er nú „á út­leið,“ eins og hún orðar það. „Kröf­urn­ar í fisk­eldi núna eru marg­falt meiri. Búnaður­inn á að vera vottaður sam­kvæmt NS-staðli sem er með strang­ari stöðlum sem fyr­ir­finn­ast. All­ur lax hér við land er í þannig kví­um í dag. En regn­bogasil­ung­ur­inn, bæði þessi í Dýraf­irði og ann­ars staðar, er í eldri kví­um sem eru að úr­eld­ast.“

Hún seg­ir að öll ný leyfi til fisk­eld­is geri þær kröf­ur að búnaður­inn sé NS-vottaður. Þá sé til­hneig­ing­in sú að fyr­ir­tæki eru að hætta eldi regn­bogasil­ungs og skipta yfir í lax­eldi.

Fimm fyr­ir­tæki rækta regn­bogasil­ung í sjókví­um við Ísland í dag. 

Geld­ur og sjúk­dóma­laus

Soffía seg­ir að Mat­væla­stofn­un sé nú að skoða hvort breyta þurfi eft­ir­liti með fisk­eldi. „Við þurf­um að setj­ast yfir þetta og meta stöðuna. Við þurf­um að sjá hvað ná­kvæm­lega gerðist, hvernig hefði mátt fyr­ir­byggja þetta, hvort gatið sé síðan í sum­ar eða nýtt. Á þess­ari stundu vit­um við það ekki.“

Hún seg­ir að vissu­lega sé slysaslepp­ing alltaf grafal­var­legt mál en bend­ir á að regn­bogasil­ung­ur sem ræktaður er í Dýraf­irði sé geld­fisk­ur og sjúk­dóma­laus. 

mbl.is