Samninganefndir sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru saman komnar í Karphúsi ríkissáttasemjara í Borgartúni, samkvæmt heimildum mbl.is.
Ekki hefur fengist staðfest hvort formlegar viðræður þeirra á milli eigi sér þar stað, en Jens Garðar Helgason, formaður SFS, sagði í samtali við mbl.is seint í gærkvöldi að kominn væri á samningur milli aðilanna.
Samið hefur verið um öll mál í kjaradeilu sjómanna og útgerðarinnar nema um eitt atriði, er varðar mögulegan skattaafslátt af fæðispeningum sjómanna.
„Samningur er kominn okkar á milli en út af stendur þetta atriði,“ útskýrði Jens Garðar.
Sjómenn hafa lýst því yfir að þeir vilji sitja við sama borð og annað launafólk sem starfar við sambærilegar aðstæður, þ.e. vinnur fjarri heimili sínu og fjölskyldu, og telja sjómenn að um sé að ræða réttlætismál fyrir stétt sjómanna.