Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að fundurinn með efnahags- og viðskiptanefnd og atvinnuveganefnd í morgun hafi verið góður þar sem menn hafi talað saman í trúnaði.
„Ég tel miklu skipta að þing og ríkisstjórn eigi í góðum samskiptum og þess vegna reyndi ég að bregðast eins hratt við og koma á fundi. Ég fór yfir stöðuna og við erum að tala saman. Það eru ákveðnar hugmyndir í gangi sem við erum að kasta á milli okkar, ég og sjómannaforystan, en auðvitað kemur að einhverjum skurðpunkti sem við þurfum að meta hvenær verður,“ sagði Þorgerður Katrín eftir fundinn.
Hún bætti við að margt gott hefði komið fram á fundinum. „Ég ætla að bíða eftir strákunum í Sjómannasambandinu og heyra hvernig þeir eru búnir að fara yfir málin í dag. Ég á von á að heyra í þeim á eftir,“ sagði hún og nefndi að hún væri tilbúin með sínar tillögur og biði eftir að heyra útlistun á því hvað sjómenn vildu.
Spurð hvort hún væri bjartsýn á að deilan færi að leysast sagðist hún alltaf vera bjartsýn. „Það liggur ljóst fyrir að deilan er búin að vera núna í níu vikur og við þurfum einfaldlega að skoða hvaða leiðir eru færar.
Ég undirstrika það að ég er að reyna að leita almennra leiða, ekki bara að endurvekja sjómannaafsláttinn.“
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Páll Magnússon, formaður atvinnuveganefndar, vildu ekkert tjá sig um það sem fram fór á fundinum. Þeir tóku fram að þeir væru bundnir trúnaði og að málið væri á viðkvæmu stigi.