Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, kveðst ánægður með að samningar hafi tekist.
„Það er auðvitað gott að það sé komin niðurstaða. Ég veit ekki alveg hvernig samningarnir enduðu í nótt, maður á náttúrulega eftir að sjá það. En þetta eru dýrir samningar,“ segir Sigurgeir Brynjar.
Sjávarútvegsráðuneytið jók fyrr í vikunni loðnukvótann þannig að 196 þúsund tonn koma í hlut íslenskra fiskiskipa. Verðmæti heildarkvótans eru áætluð 17 milljarðar króna, samkvæmt mati sjávarútvegsráðuneytisins.
Útilokað er að segja til um það nú hvort íslensku fiskiskipin ná að veiða sinn hluta af loðnukvótanum áður en loðnan hrygnir og drepst. Um mánuður er til stefnu og ekki komið að hrognatökutímanum þegar afurðirnar eru verðmætastar.
Aðspurður segist Sigurgeir Brynjar þó bjartsýnn á að ná öllum loðnukvóta fyrirtækisins.
„Undir eðlilegum kringumstæðum ættum við að ná honum. En það er ekki þar með sagt að hann náist allur þegar á heildina er litið. Ég er ekki alveg viss um það. Allt þarf að ganga upp til að svo megi verða.“