Stefnt er að því að skipafloti landsins geti haldið á sjó á sunnudagskvöld að sögn Konráðs Alfreðssonar, varaformanns Sjómannasambandsins, en samningar tókust í kjaradeilu sjómanna um klukkan hálfþrjú í nótt. Skattaafsláttur á fæðispeningum sjómanna er ekki hluti af samningnum.
Samningurinn fer nú í kynningu hjá félagsmönnum sjómannasambandsins og svo í atkvæðagreiðslu í framhaldinu. Segir Konráð að niðurstöður úr atkvæðagreiðslunni muni liggja fyrir eigi síðar en á sunnudagskvöld.
Hann segir það líklegt að samningurinn verði samþykktur en sjómenn hafa fellt samninga tvívegis. Segir Konráð samninginn betri núna en í fyrri skipti.
Líkt og fram kom í frétt mbl.is fyrr í kvöld byggir samningurinn ekki á málamiðlunartillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hún lagði fram í kvöld. Segir Konráð að skattaafsláttur á fæðispeningum sjómanna sé ekki hluti af samningnum en sjómönnum hugnaðist ekki heildartillaga sjávarútvegsráðherra sem innihélt skattaafsláttinn.
Spurður hvort hann sé ósáttur með aðkomu ráðherra að kjaradeilunni kveðst hann ánægður með að ráðherrann hafi endurskoðað afstöðu sína í málinu, en tillögurnar hafi hins vegar ekki verið fullnægjandi.