Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness boðar til kynningarfundar á nýgerðum kjarasamningi sjómanna klukkan 17:00 í dag.
Eins og áður hefur komið fram náðust samningar í kjaradeildu sjómanna á þriðja tímanum í nótt en þá hafði samningafundur sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi staðið yfir í nokkra klukkutíma í Karphúsi.
Kemur fram í yfirlýsingu á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness að á fundinum muni formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, kynna samninginn fyrir félagsmönnum.
Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambandsins, sagði við mbl.is í nótt eftir að samningurinn var undirritaður að stefnt væri að því að skipafloti landsins geti haldið á sjó á sunnudagskvöld.
Samningurinn fer nú í kynningu hjá félagsmönnum Sjómannasambandsins og svo í atkvæðagreiðslu í framhaldinu. Segir Konráð að niðurstöður úr atkvæðagreiðslunni muni liggja fyrir eigi síðar en á sunnudagskvöld.