Lagasetning vofði yfir

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, tekur í hönd eins nefndarmanns …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, tekur í hönd eins nefndarmanns í samninganefnd sjómanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjómannasamningurinn sem var undirritaður í Karphúsinu í kvöld er gríðarleg viðbót við samninginn sem var felldur um jólin. Ákvæði tengt fæðismálum sjómanna varð til þess að deiluaðilar náðu saman á þriðja tímanum í nótt en í samningnum er einnig að finna veglega eingreiðslu til sjómanna.

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það afar ánægjulegt að samningur hafi tekist milli deiluaðila og ekki hafi komið til lagasetningar. „Það er mikilvægt að við náðum samningi því við þurftum að eyða þessu sambandi sem hefur verið síðustu ár og áratugi þar sem kjarabarátta sjómanna hefur meira og minna alltaf endað í lögum,“ segir Jens.

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. mbl.is/Árni Sæberg

Samið í nótt eða lagasetning á morgun

Hann segir að þegar ljóst hafi orðið að stjórnvöld kæmu ekki að lausn deilunnar með breytingu á skattkerfinu, sem miðaði að því að fæðispeningar sjómanna yrðu skattfrjálsir og væri deiluaðilum þóknanleg, hafi menn áttað sig á því að annaðhvort yrðu deiluaðilar að setjast niður og reyna að semja „eða menn löbbuðu hér út. Þá fannst mönnum að það væri í loftinu að á yrðu sett lög,“ segir Jens.

Spurður hvort Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafi sett deiluaðilum afarkosti á fundi með þeim í gærkvöldi segir Jens enga afarkosti hafa verið setta deiluaðilum. Hann segir það hins vegar hafa verið rætt. „Auðvitað ræddu menn lagasetningu. Bæði við og sjómenn skynjuðum einnig að lagasetning væri í farvatninu,“ segir hann. „Menn skynjuðu það mjög sterkt að yfirvöld væru að missa þolinmæðina fyrir því að við næðum saman.“

Frá undirritun samningsins í kvöld.
Frá undirritun samningsins í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í upphafi vikunnar ákvað sjávarútvegsráðuneytið að stórauka loðnukvótann. Tíminn til veiða á loðnunni er knappur ætli sjávarútvegsfyrirtæki að veiða áður en loðnan hrygnir og drepst. Spurður hvort loðnan haft áhrif á lausn deilunnar segir Jens loðnukvótann einan og sér ekki hafa haft stórkostleg áhrif. „En hefði gert það eftir helgi,“ segir Jens. Hann segir að miðað við hversu stuttur tími sé eftir af loðnuvertíðinni hefði það pressað á deiluaðila eftir helgina. „Frá og með mánudegi má áætla að ekki tækist að veiða 20 til 30 þúsund tonn á dag,“ segir Jens.

Deiluaðilum var létt þegar samningar náðust um klukkan hálfþrjú í …
Deiluaðilum var létt þegar samningar náðust um klukkan hálfþrjú í nótt. Lagasetning á verkfallið var yfirvofandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir baráttu sjómanna fyrir skattfrjálsum fæðispeningum ekki lokið þrátt fyrir að samningar hafi tekist í kvöld. Býst hann við því að sjómenn haldi þeirri baráttu áfram og segir hann sjávarútvegsfyrirtæki standa með sjómönnum í þeirri baráttu sinni að fá sömu kjör og sambærilegar stéttir hafa við fjarveru að heiman.

mbl.is