Strax og ljóst var hver niðurstaða atkvæðagreiðslu sjómanna um nýjan kjarasamning var nú í kvöld hófu fiskiskip að halda úr höfn víðs vegar um landið. Samkvæmt upplýsingum frá tilkynningarskyldunni hjá Landhelgisgæslunni hafa þegar 10-15 skip tilkynnt sig inn á leið á miðin.
Aðeins 3-4 vikur eru eftir af loðnutímabilinu og er mest áhersla lögð á að ná henni upp áður en það verður of seint. Loðnukvótinn var nýlega hækkaður upp í 196 þúsund tonn og er mestallt óveitt af þeim kvóta. Því er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða.
Þegar fréttaritari mbl.is hitti á skipverja á Saxhamri á Rifi sagði hann að ekki væri stefnt á að fara langt á haf út í þetta skiptið, þar sem smábátar hafi undanfarið verið að moka upp fiski á Breiðafirði.